Stærsti hraðhleðslugarður landsins tekinn í notkun
Stærsti hraðhleðslugarður landsins var formlega tekinn í notkun fyrir helgina en hann er staðsettur við Aðaltorg í Reykjanesbæ, steinsnar frá Keflavíkurflugvelli. Breska hraðhleðslufyrirtækið InstaVolt stendur að uppbyggingunni í samstarfi við HS Orku. Alls eru 20 hleðslustöðvar aðgengilegar við Aðaltorg en InstaVolt áformar að byggja upp 200 nýjar hleðslustöðvar víðs vegar um landið á næstu tveimur árum.
Framkvæmdir hófust í byrjun febrúar og gekk uppbyggingin bæði hratt og vel. Velvilji Reykjanesbæjar og HS Veitna skiptu höfuðmáli í að ýta verkefninu úr vör en það voru jarðvinnuverktakinn Ellert Skúlason ehf. og rafverktakafyrirtækið Rafal ehf. sem sáu um framkvæmdir.
Veruleg uppbygging innviða
InstaVolt er öflugasta hraðhleðslufyrirtæki Bretlands. Verkefnið hér á landi markar tímamót fyrir fyrirtækið, sem hefur til þess einskorðað sig við Bretlandsmarkað, en með því hefur fyrsta skrefið verið stigið inn á alþjóðlega markaði.
InstaVolt er þekkt fyrir öruggar og snertilausar kortagreiðslulausnir og því mun hvorki þurfa hleðslulykla né hleðsluapp til að hlaða. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að fjárfestingar InstaVolt í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi styðji vel við orkuskipti á Íslandi og loftslagsmarkmiðin um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.