Standa þarf rétt að málum þegar gefa á start
Eftir því sem bílar verða fjölbreytanlegri verður öðruvísi að gefa eða þiggja start en það var áður, sumt má og annað ekki. Bílar eru flóknari og þetta er stundum orðinn frumskógur að eiga við. Fyrirspurnir um þetta og því tengdu berast í æ meira mæli inn á skrifstofu FÍB. Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við Björn Kristjánsson, tæknimann hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Björn fór yfir það í þættinum hvernig best er að standa að þessum málum þegar kemur að því að gefa start. Björn kom inn á það að núna eru ekki einungis blöndungsbílar á götunum heldur eru bílar orðnir flóknari en áður og vanda þurfi til verka.
,,Ef ekki er staðið rétt að hlutunum geta orðið skemmdir á tölvubúnaðinum í báðum bílunum. Því skiptir máli þegar verið er að stússast í þessum tengingum að hafa ekkert rafmagn á bílunum, vera búnir að drepa á þeim og taka lykilinn úr. Þegar búið er að koma tengingu á milli bílana þá er bíllinn ræstur sem á að gefa rafmagn, hinkrað í smástund meðan rafmagn er að koma inn á geyminn. Þegar því er lokið er hægt að ræsa hinn bílinn og að lokum taka kaplana í sömu röð til baka til þegar aðgerðinni er lokið. Eftir á er síðan gott að velta því fyrir sér afhverju bíllinn varð rafmagnslaus. Það er ekkert eðlilegt ástand að bílar verði rafmagnslausir við það kannski að gleyma að slökkva á ljósunum í nokkrar mínútur. Lífítími rafgeyma er ekki meiri en á bilinu 3-5 ár,“ sagði Björn í viðtalinu á Bylgjunni.
Björn sagði ennfremur það góða reglu að fara til fagsmanns þegar þetta ástand eins og rafmagstruflanir koma upp. Það skipti öllu máli að gæta öryggis og fylgja reglum í þessu sem öðru þegar kemur að bílnum almennt. Viðtalið við Björn er afar upplýsandi og fræðandi.