Startarinn aldargamall
Nú í mars er liðin ein öld frá því að fyrsti rafstartarinn fyrir bíla í núverandi mynd var fyrst kynntur. Rafstartarinn markaði tímamót í bílasögunni og gerði margri bílamanneskjunni lífið margfalt auðveldara í umgengninni við bílinn. Það var nefnilega, og er ekkert auðvelt að snúa bíl í gang með sveif og gat og getur enn verið varasamt ef kveikjan er aðeins of fljót og vélin kveikti of snemma. Þá gat hún slegið hastarlega til baka. Í æsku skrifara þessara orða skömmu eftir miðja síðustu öld gengu miklar sögur af hrekkjóttum bílum sem slógu til baka og handleggsbrutu menn sem voru að reyna að snúa þá í gang.
Rafstartarinn markaði því mjög mikilvæg tímamót og var í raun fyrsta stóra skrefið til rafvæðingar bíla og til þess að gera bílinn og aksturinn öruggari og tryggari og alla notkun bílsins auðveldari. Fyrsti rafstartarinn sótti strauminn í rafgeymi bílsins en bílarafgeymirinn og sjálfstætt rafkerfi bíla var líka uppfinning Bosch, einungis einu ári eldri en startarinn.
Fyrsti startarinn árið 1914 var mikið flykki, næstum 10 kíló að þyngd en afl hans ekki beint í takti við þyngdina, eða einungis 0,6 kílówött. Nútímastartarar í fólksbílum eru frá tæpum tveimur kílóum að þyngd og upp í 17 kíló í stærstu bílum og afl þeirra er frá 0,8 til 9,2 kílówött.
Það var þáverandi yfirverkfræðingur hjá Bosch, Gottlob Honold sem hannaði startarann og vinnuferil hans í þeirri mynd sem er í meginatriðum eins enn þann dag í dag. Bílaframleiðendur höfðu vissulega reynt sig við að búa til ræsibúnað fyrir bílvélarnar áður, en búnaður Gottlobs reyndist vera einna einfaldastur í framleiðslu og notkun. Eftirspurn varð strax mest frá bílaframleiðendum í Bandaríkjunum og til að mæta henni setti Bosch snarlega þetta sama ár, 1914, upp aðstöðu til að framleiða startara í verksmiðju fyrirtækisins í Plainfield í New Jersey.
Ekki er þó hægt að segja að startarinn hafi slegið í gegn strax. Hann var nefnilega lengi vel talinn lúxus sem vel mætti komast af án. Salan fór því fremur rólega af stað og árið 1927 hafði Bosch selt um það bil 11.000 startara, en upp úr því tók salan kipp og sex árum síðar, árið 1933 höfðu selst tæplega 550.000 startarar. Í dag framleiðir Bosch yfir 12 milljón startara á ári og startarar frá Bosch eru í um það bil fimmta hverjum nýjum bíl í heiminum.