Stefnir í að umferðin á höfuðborgarsvæðinu í ár slái öll met
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nóvember reyndist 3,5 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er heldur minni aukning en á Hringvegi en töluvert mikil aukning. Nú stefnir í að umferðin á svæðinu í ár slái öll met og verði 4,5 prósentum meiri á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra af því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í nýliðnum nóvember reyndist 3,5% meiri en í sama mánuði á síðasta ári, fyrir þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Líkt og á Hringvegi reyndist heildarumferðin í mánuðinum vera nýtt met.
Hlutfallslega jókst umferðin mest yfir mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku (4,0%) en minnst jókst umferð í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk (2,4%).
Nú hefur umferðin aukist um 4,4% í umræddum mælisniðum á tímabilinu frá áramótum til nóvember loka borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna meiri aukningu miðað við árstíma, ef frá er talið árið 2021 vegna aukningar eftir Covit-faraldurinn.
Hlutfallslega jókst umferð mest á sunnudögum (5,3%) en minnst á þriðjudögum (1,7%). Mest var ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum, í nýliðnum mánuði.