Stefnt að fækkun bensínstöðva í borginni um helming á næstu árum
Borgarráð samþykkti á fundi í gær meginlínur og samningsmarkmið í viðræður við olíufélögin með það að markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming. Í stað bensínstöðva komi íbúðauppbygging, hverfisverslanir eða önnur starfsemi á lóðunum. Alger einhugur var í borgarstjórn um málið.
Fram kom að skilgreindir hafa verið hvatar fyrir olíufélögin til að hraða þessari umbreytingu í samvinnu við borgina í græna átt.
Loftslagsáætlun borgarinnar gerir ráð fyrir að stöðvunum verði fækkað um helming fyrir árið 2030 en nú brá svo við að borgarráði leist svo vel á uppleggið að það sameinaðist um að herða á markmiðinu og stefna á að ná því fyrir árið 2025.
FÍB hefur oft í tímans rás vakið athygli hversu þétt net eldsneytisstöðva er á höfuðborgarsvæðinu og hversu óhagkvæmt það hlýtur að vera. Olíufélögin og sömuleiðis borgaryfirvöld og sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu gætu auðveldlega stýrt þéttleikanum – olíufélögin eftir hagrænum forsendum og yfirvöld með skipulagsaðgerðum og með t.d. með lóðaúthlutun og með því að endurúthluta lóðum vannýttra stöðva.
Í dag eru um 44 bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem gerir að ein bensínstöð sé á hverja 2.700 íbúa. Þess má geta að ein bensínstöð er á hverja tíu þúsund íbúa í Lundúnum. Bensínstöðvum hefur almennt farið hratt fækkandi í Evrópu á síðustu árum.