Steikarfeiti breytt í dísilolíu í Luxembourg
Nú þegar verð á bílaeldsneyti er í hæstu hæðum vekja fréttir af öllu því sem lækkað gæti orkureikninginn mikla athygli. Hér á fréttasíðu FÍB höfum við greint frá möguleikum á því að nota jurtaolíu sem eldsneyti á dísilbíla og aðrir fjölmiðlar hafa rætt um þau mál við starfsfólk félagsins.
Ekki eru allir jafn trúaðir á að það sé hægt að aka dísilbíl á matarolíu eða annarri lífrænni olíu sem unnin er úr plöntum, né heldur að það sé hægt að aka bensínbílum á spíra sem búinn er til úr plöntuaffalli, eins og t.d. kornhálmi eða fóðurkáli. En hvort sem fólk trúir þessu eða ekki þá er staðreyndin samt sú að hvorttveggja er gert í talsverðum og vaxandi mæli. Talsvert stórar verksmiðjur sem vinna olíu úr repju fyrirfinnast þegar í nálægum löndum eins og Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð og bæði lífræna olían og spírinn eru nýtt sem bílaeldsneyti, aðallega með því að blanda spíranum saman við bensín og endurunnu matarolíunni saman við venjulega bíladísilolíu. Þessum verksmiðjum fer jafnt og þétt fjölgandi.
Í þeim Evrópulöndum sem næst okkur liggja er rekin markviss endurnýtingarstefna og heimilin eru aðstoðuð við og hvött til að halda til haga ýmsum úrgangi sem svo er safnað saman og hann endurunnin. Meðal slíkra efna er t.d. notuð djúpsteikingarolía frá bæði heimilum og skyndibitastöðum og matvælaiðnaði. Olían er hreinsuð og endurunnin í það að verða eldsneyti á bíla, ýmist ein sér eða sem íblöndunarolía í venjulega dísilolíu.
Fyrir nokkru birti DV viðtal við ritstjóra FÍB fréttavefsins og FÍB blaðsins um þessi mál. Í framhaldinu barst FÍB bréf frá íslenskri húsmóður í Luxembourg ásamt fréttaúrklippu úr dagblaði þar í landi. Í fréttinni segir frá fyrirtæki í Luxembourg sem heitir SuperDrecks-Kescht og safnar saman ….„ýmsu dóti hjá okkur sem við getum/megum ekki henda í ruslatunnur. Þetta eru hlutir eins og málningarafgangar, rafhlöður og einnig gömul djúpsteikingarolía. Fyrir hana fáum við sérstakar fötur með loki sem við setjum alla úrgangsfeiti í,“ segir húsmóðirin, Laufey Ármannsdóttir í bréfi sínu til FÍB.
Í fréttinni úr lúxembúrgska dagblaðinu segir að Luxembourg sé ásamt Austurríki fyrsta Evrópulandið þar sem markvisst var byrjað að safna saman úrgangsfeiti í þeim tilgangi að breyta henni í eldsneyti fyrir dísilbíla og til húsahitunar. Síðan 2003 hafi fyrirtækið SuperDrecks-Kescht safnað saman úrgangsfeiti og framleitt úr henni dísilolíu. Í fyrra þá framleiddi fyrirtækið 278 tonn af dísilolíu úr tæplega 309 tonnum af lífrænni úrgangsolíu. Reiknað er með að dísilolíuframleiðslan í ár verði ekki undir 350 tonnum.