Sterkur „ættarsvipur“
Margir áhugamenn sem skoðað hafa bílana á bílasýningunni miklu í Frankfurt sem nú stendur yfir hafa rekið augun í það hversu bandarísku Buickbílarnir og hinir þýsku Opel eru svo makalaust líkir.
Autonews, málgagn bandaríska bílaiðnaðarins, veltir þessu fyrir sér og bendir á að það sé auðvitað skyldleikinn. Buick er eitt af vörumerkjum General Motors og það er Opel líka, en ekki nóg með það. Nýráðinn yfirhönnuður Opel í Þýskalandi; Mark Adams, er jafnframt aðalhönnuður Buick í Bandaríkjunum.
Opel sýnir á sínu sýningarsvæði frumgerð nýs Monza sportbíls (bíllinn á myndinni) sem vakið hefur talsverða athygli fyrir hversu fallegur bíllinn er en jafnframt afskaplega líkur Buick. Mark Adams segir við Autonews að það sé engin tilviljun því að unnið sé að því að samræma enn frekar bílana í tæknilegu tilliti. Þeir verði framvegis byggðir á sömu grunnplötu og nýti sömu vél- og driftækni og eigi einmitt að vera svipaðir í útliti, þótt hvor um sig eigi að bera eigin sérkenni. Jafnframt eigi allir Opel og Buick bílar framvegis að vera hannaðir samkvæmt einni meginlínu sem geri þá auðþekkta. Þessi meginlína verði gegnumgangandi í útliti bíla eins og Opel Mokka, Buick Encore, Opel Insignia, Buick Regal, Opel Astra og Buick Verano sem seldur er í Kína undir nafninu Excelle. En allir þessir nefndu bílar eru á boðstólum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.