Stilling og Liqui Moly gefa 25 milljónir til bílaleiga á Íslandi.
Stilling hf í samstarfi við þýska olíu-og bætiefnaframleiðandann Liqui Moly hafa ákveðið að styðja við íslenskar bílaleigur sem leggja þurfa stórum bílaflota sínum í sumar í kjölfar COVID-19. Allar bílaleigur, rútufyrirtæki og aðrir flotaeigendur fá bætiefni frá Liqui Moly sem drepur bakteríur í dísilolíu og kemur í veg fyrir myndun þeirra, ásamt að verja eldsneytiskerfið fyrir tæringu og ryðmyndun.
Efninu er einfaldlega hellt á fullan eldsneytisgeymi bílsins en efnið endist í allt að fimm ár ef bíllinn er ekki notaður. Stórt vandamál dísilbíla er að eldsneytið getur innihaldið allt að 7% biodísil sem er náttúrulegt efni. Vatn getur komist í dísilinn með ýmsum leiðum og með tímanum myndast bakteríur á botni eldsneytistanksins sem á nokkrum vikum og mánuðum breytist í leðju sem eyðileggur eldsneytið, stíflar eldsneytissíur og eldsneytiskerfið þegar bifreiðin fer í notkun aftur. Slík viðgerð getur kostað mikla fjármuni og förgun á eldsneyti.
„Okkur varð ljóst strax í vor að flotaeigendur stæðu frammi fyrir kostnaðarsömu fyrirbyggjandi viðhaldi á bílaflota sínum þrátt fyrir að flotinn yrði lítið sem ekkert notaður. Við höfðum samband við Ernst Prost forstjóra Liqui Moly sem tók vel í hugmyndir okkar og bauðst til að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Við erum mjög stolt af því að geta lagt hönd á plóginn með okkar viðskiptavinum,“ segir Júlíus Bjarnason, forstjóri Stillingar.
„Við ásamt Stillingu hf. höfum átt frábært samstarf með íslenskum fyrirtækjum síðustu 10 ár, þannig að það var engin spurning að slá til þegar þessi hugmynd kom upp. Okkur finnst það vera okkar skylda að hjálpa til á þessum erfiðu tímum,“ segir Ernst Prost, forstjóri Liqui Moly.
Stilling var stofnað 1960 og fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Stilling er stærsti sjálfstæði innflytjandi og dreifiaðili á varahlutum og fylgihlutum í bifreiðar á Íslandi og rekur sex sölustaði. Liqui Moly er þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í olíum, smurefnum og bætiefnum í allskyns farartæki og vélar. Í dag er Liqui Moly stærsti olíuframleiðandi Þýskalands.