Stinga af eftir ákeyrslur

http://www.fib.is/myndir/Minnihattar.jpg

Samkvæmt frétt frá Umferðarstofu segist lögregla í Kópavogi vart hafa undan að leita uppi ökumenn sem valda tjóni og stinga af frá verknaðinum. FÍB vill minna þá, sem verða vitni að því að ekið sé á bifreiðar félagsmanna og síðan stungið af frá öllu saman, á það að hafa samband við FÍB og gefa upp númer og helst tegund og lit bílsins sem tjóni olli. Leiði upplýsingarnar til þess að tjónvaldurinn finnst og tjónið þarmeð fæst bætt, greiðir FÍB þeim sem upplýsingarnar gaf, 10 þúsund króna „fundarlaun.“

Í fréttinni Umferðarstofu segir að ef ökumaður verður fyrir því að valda tjóni á annarri bifreið og ökumaður hennar eða eigandi er ekki nærri þá er mjög mikilvægt að haft sé samband við lögregluna svo hægt sé að ganga frá málum. Það sem í fyrstu virðist vera lítið tjón reynist oft vera mun meira. Ef stungið er af þá mun einhver grandalaus eigandi ökutækis þurfa að gjalda þess þar sem tryggingar bæta tjónið ekki nema um kaskótryggingu sé að ræða. Það er einnig ástæða til að hvetja þá sem verða vitni af afstungu að taka niður númer þess sem stingur af og láta lögreglu vita.