Hækkun eldsneytis mun draga úr kaupmætti almennings

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir að leggja auknar álögur á bensín og dísilolíu með hækkun á vörugjaldi af bensíni, olíugjaldi og kolefnisgjaldi. Næðu þessar hugmyndir fram að ganga hefðu þær í för með sér hækkun á hverjum dísilolíulítra um 21,90 krónur og hækkun um 8,60 krónur af hverjum bensínlítra til neytenda. Tekjur ríkissjóðs af bílaeldsneyti myndu hækka um ríflega 20% samanborið við fjárlög 2017. 

Eldsneytiskostnaður er veigamikill þáttur í framfærslu heimilanna og hækkun skatta á eldsneyti eykur verðbólgu með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum skuldum og þyngri afborgunum. Vísitala neysluverðs gæti hækkað um 0,3% til 0,4% í  upphafi nýs árs ef tillögur frum-varpsins um hækkun skatta á elds-neyti næðu fram að ganga.

Hver er afstaða flokksins/fram-boðsins til þessara tillagna?

BJÖRT FRAMTÍÐ
Flokkurinn er sammála þessum tillögum sem nauðsynlegu skrefi til að hefja umbreytingu á bílaflota landsmanna og skapa hvata til að gera samgöngur umhverfisvænni. Það má svo alltaf ræða hvaða tölur eru nægjanlegar eða hóflegar í fyrstu skrefum.

FLOKKUR FÓLKSINS
Þessi hækkun er án viðunandi skýringa og við erum alfarið á móti því að ríkið afli sér viðbótartekna til óvissra nota “AF ÞVÍ BARA”

FRAMSÓKN
Hækkun eldsneytis mun draga úr kaupmætti, auka þrýsting verulega í kjaraviðræðum sem framundan eru og síðast en ekki síst, hafa áhrif á vísitölu sem mun hækka verðtryggð húsnæðislán og þar með ýta verðbólgunni af stað. Þar til viðbótar má nefna að þetta er viðbótarskattur, landsbyggðarskattur, á þá sem þurfa búsetu sinnar vegna að aka lengra og meira en meðalakstur.

PÍRATAR
Píratar eru alfarið á móti þessum tillögum, enda bitna þær harðast á þeim sem sízt skyldi. Þeir sem minnst fjárráðin hafa aka eldri bílum að jafnaði og hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að kaupa nýjar eða nýlegar umhverfisvænar bifreiðar. Hækkun vísitölu neysluverðs hefur mjög neikvæð áhrif á efnahag
almennings. Betra væri að viðhalda þeim já-kvæðu hvötum til að kaupa umhverfisvænar bifreiðar sem nú þegar eru til staðar og jafnvel að auka við þá með einhverju móti.


SAMFYLKINGIN
Þessar krónutöluhækkanir bitna harðast á tekjulágu fólki og þeim sem keyra mikið, fólki sem býr út á land. Þessi forgangsröðun er Samfylkingunni ekki að skapi. Ef ráðast á í þessar skattahækkanir verður að létta byrðum ann-arsstaðar af því fólki sem ber mestar byrðarnar. Hlýnun jarðar eru áhyggjuefni um allan heim, líka á Íslandi. Það eru ríkir þjóðarhagsmunir að íslensk stjórnvöld verði í hópi forysturíkja í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi og vera í fararbroddi í aðgerðum innanlands gegn þessari vá. Það verður að gera með sanngjörnum hætti og ekki með tilviljanakenndri stefnu í skattamálum. Breytingar þarf að skoða í stærra samhengi sem tryggir árangur bæði í loftslagsmálum og í baráttunni fyrir betri kjörum almennings.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Ráðherrar og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var með fyrirvara gagnvart tillögum fjármálaráðherra um auknar álögur á bensín og dísilolíu í fjárlagafrumvarpinu. Einnig gerðu einstaka þingmenn flokksins opinberlega fyrirvara við stuðning sinn við þessar tillögur. Alþekkt er að tillögur í fjárlagafrumvörpum nái ekki fram að ganga vegna andstöðu einstaka stjórnarliða. Vísast er að svo hefði farið í þessum efnum. Þar má vitna til ræðu fjármálaráðherra á Alþingi sem sagði að breytingar myndu verða á fjárlagafrumvarpinu í meðförum þingsins.

VIÐREISN
Ekki öll frumvörpin eru komin fram sem liggja til grundvallar fjárlagafrumvarpinu, og verða ekki lögð fram fyrr en eftir stjórnarskipti. Nákvæmar útfærslur á krónutölum liggja því ekki fyrir að öllu leyti. Mikilvægt er að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og stefni að því að notkun olíu minnki sem hraðast. Geri Ísland það ekki, þarf ríkissjóður að greiða fjárhæðir sem nema milljörðum króna á hverju ári að kaupa losunarheimildir.
Viðreisn vill að þau sem menga borgi. Samhliða breytingum á kolefnisgjaldi eru ríflegar ívilnanir til kaupa á rafbílum framlengdar og ríkið niðurgreiðir uppbyggingu hleðslustöðva í kringum landið, auk annarra aðgerða til að stemma stigu við hækkandi hitastigi á jörðinni. Mikilvægt er að þeir sem standa frammi fyrir vali um bíl hafi fjárhagslegan hvata til að velja sparneytnari bíla umfram eyðslumikla. Kostnaður við bíl sem ekið er 10.000 km mun hækka um 5-10.000 krónur á ári, lægri talan fyrir bensínbíla en sú hærri fyrir dísilbíla.

Bent er á að á blaðsíðu 105 í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2018 er sagt að vísitala neysluverðs hækki um 0,08%, en ekki 0,3-0,4% eins og spurningin gengur út frá. Með lægri virðisaukaskatti árið 2019 lækkar vísitala neysluverðs um 0,5%, eða um 6 sinnum meira en hækkun bensíngjalda veldur. Verðtryggðar skuldir munu því lækka og afborganir sömuleiðis. Viðreisn leggur áherslu á nýtingu innlendra orkugjafa sem draga úr mengun, lækka orkukostnað heimil-anna þannig að hann verður sáralítill og sparar þjóðarbúinu tugi milljarða í innflutningi.

VINSTRI GRÆN
Umhverfissjónarmið þarf að hafa að leiðarljósi við allar ákvarðanir í samgöngumálum þar sem mikil tækifæri eru í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í þeim málaflokki. Orkuskipti í samgöngum eru eitt af mikilvægum verkefnum næstu ára og skoða þarf allar leiðir til að koma þeim á þannig að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Vinna þarf að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og hægt er. Grænir skattar eru eitt af verkfærunum til þess og þekkjast í öllum nágrannalöndum okkar.

 

Tengt efni

Framlög til samgöngumála er góð fjárfesting

Flokkarnir vilja auka fjármagn til framkvæmda og viðhalds í vegakerfinu

 

Fram hafa komið vísbendingar um að eldsneytishækkanirnar komi verst niður á fjölskyldum sem hafa minni tekjur og íbúum á landsbyggðinni sem oft þurfa að sækja nauðsynjar, þjónustu og félagsstarf um langan veg.
Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til þessa?

BJÖRT FRAMTÍÐ
Það er ekki markmið Bjartrar framtíðar að leggja sérstakar álögur á tekjulægri fjölskyldur né íbúum landsbyggðarinnar. Björt Framtíð vill jafna aðstöðumun landsbyggðar og kjör tekjulægri hópa. Aðstöðumun þarf að jafna m.t.t. búsetu og heildrænnar nálgunar á samgöngur og samskipti.

FLOKKUR FÓLKSINS
Það er algjörlega vafalaust í okkar huga að þessar álögur hljóti að koma harðast niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, þeim sem nú þegar eru að berjast við og undir fátæktarmörkum og með hreinum ólíkindum að stjórnvöld skuli enn og aftur ganga á undan með því fordæmi að ætla að ráðast á bág kjör þessara hópa.

FRAMSÓKN
Framsóknarflokkurinn telur ekki rétt að hækka álögur á alla landsmenn þegar möguleikar til notkunar á rafbílum eru ekki enn til staðar um land allt.

PÍRATAR
Píratar eru ósáttir við ójafnar álögur, hvaða nafni sem þær nefnast.

SAMFYLKINGIN
Samfylkingin vill beita sanngjörnum aðferðum til þess að minnka kolefnisspor Íslendinga. Þær mega ekki bitna á tekjulágum fjölskyldum og landsbyggðinni. Við teljum þessa leið ekki sanngjarna. Snúa þarf frá þeirri þróun sem hefur átt sér stað frá aldamótun að skattbyrði hefur aukist á milli- og lágtekjufólk.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Eins og að framan segir gerði Sjálfstæðisflokkurinn fyrirvara við tillögu fjármálaráðherra í fjárlagafrumvarpinu um hækkun eldsneytisgjalda og má vera ljóst af framansögðu að þær hefðu ekki náð fram að ganga.

VIÐREISN
Eins og rakið er að ofan hafa aðgerðir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpi þær afleiðingar að virðisaukaskattur á allar vörur lækkar um 1,5%, inn-
flutningur rafbíla og annarra vistvænna bíla verður ríflega niðurgreiddur og hleðslustöðvar eru byggðar upp. Lykilatriðið fyrir fjölskyldur á landsbyggðinni, sem spurningin snýr að, er skattlagning per ekinn kílómeter. Meðfylgjandi mynd sýnir að skattlagningin hefur lækkað hratt á síðustu árum með bættri tækni og eyðslugrennri bílum. Hvatinn til að kaupa eyðslugranna bíla verður enn meiri, hvort sem það eru rafbílar eða ekki.

VINSTRI GRÆN
Það er almenn stefna Vinstri-grænna að hlífa lág- og millitekjuhópum í skattkerfinu. Þá leggjum við ríka áherslu á að gripið verði til mótvægisaðgerða vegna olíugjalda gagnvart landsbyggðinni, þar sem bíllinn er oft og tíðum eini valkosturinn. Það þarf að efla almenningssamgöngur þannig að þær verði raunverulegur valkostur við einkabílinn og byggja upp innviði fyrir rafbílavæðingu samhliða hækkun olíugjalda þannig að græn markmið þessara skattahækkana náist. Þannig myndum við vilja sjá samhliða þessu skýrari skattaívilnanir til umhverfis-vænni samgöngumáta og hraðari innviðauppbyggingu þannig að orkuskipti í samgöngum gangi hraðar fyrir sig.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra og fleiri hafa talað fyrir hugmyndum um vegatolla á öllum samgönguleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu vegna brýnna tugmilljarða vega-framkvæmda. Um væri að ræða upptöku á vegum og eignum í eigu borgaranna til vegafélags/félaga sem vegfarendum væri leigður aðgangur að í nokkra áratugi.

Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til viðbótar skattlagningar á vegfarendur í formi vegatolla?


BJÖRT FRAMTÍÐ
Björt framtíð telur að skoða þurfi kosti þess að hefja gjaldtöku á helstu stofnbrautum út af höfuðborgarsvæðinu en í því felast tækifæri til að gera stórátak í uppbyggingu vegakerfisins þar sem umferðin er mest. Forsendan er að gjaldtakan standi undir framkvæmd-unum og að vegafé verði ekki skert á móti heldur frekar aukið í og það notað til uppbyggingu samgagna á landsbyggðinni.

FLOKKUR FÓLKSINS
Framkvæmdir á umferðarmannvirkjum eru nú þegar inni í mörkuðum tekjustofnum og viðbótarskattlagningar þar með óþarfar.

FRAMSÓKN
Framsóknarflokkurinn er ekki  hlynntur vegatollum, þeir eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins.

PÍRATAR
Píratar hafna alfarið þessum hugmyndum, þegar um er að ræða einu samgönguleiðirnar sem í boði eru. Píratar er þó jákvæðir gagnvart fjármögnun nýrra samgöngumannvirkja með vegtollum ef þeir hafa engin áhrif á þau samgöngumannvirki sem fyrir eru og ef samgöngumannvirki sem fjármögnuð eru með þeim hætti komast að fullu í eigu ríkisins þegar þau hafa verið greidd upp. Hvalfjarðargöng eru dæmi um vel heppnaða framkvæmd sem fjármögnuð var með vegtollum.

SAMFYLKINGIN
Samfylkingunni hugnast ekki fram komnar hugmyndir um veggjöld. Að setja veggjöld á þjóðveg 1, inn og út úr Reykjavík, er ekki hægt að bera saman við gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum eða Vaðlaheiðagöngum. Í þeim tilfellum báðum geta vegfarendur valið aðra leið.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Í upphafi skal áréttað að framangreind fullyrðing FÍB stenst ekki skoðun. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði starfshóp til að meta kosti þess að byggja með hraði upp helstu stofnleiðir út frá höfuðborginni og að þær framkvæmdir yrðu fjármagnaðar með veggjöldum. Í tillögum sem hópurinn skilaði af sér nýverið kemur fram að unnt væri að tvöfalda leiðina til Keflavíkurflugvallar, veginn austur fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá og leiðina upp í Borgarnes að meðtöldum nýjum Hvalfjarðargöngum á 6 – 8 árum með því að innheimta veggjöld til fjölnotenda upp á allt að 140 kr. á hverri leið og myndu veggjöldin borga upp framkvæmdirnar á 20 árum.Fáskiptisnotendur eins og erlendir ferðamenn myndu t.a.m. greiða mun hærra gjald, en mikil fjölgun þeirra hefur valdið stórauknu álagi á vegakerfi landsmanna.

Þessi vinna var sett af stað í ljósi þess að afar brýnt er að bæta vegakerfið á þessum leiðum, enda beinn kostnaður vegna umferðarslysa á áðurnefndum vegaköflum 3,1 ma.kr. á síðasta ári einu. Hugmyndir um að leita fjölbreyttari leiða til fjármögnunar samgöngukerfisins eru í samræmi við stefnu
Sjálfstæðisflokksins sem og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ástæðan fyrir því að ráðist var í þessa vinnu var sú að menn hefðu fyrir framan sig tillögu að lausn afmarkaðs verkefnis sem taka mætti afstöðu til á grundvelli faglegrar og málefnalegrar umræðu.

Í framtíðinni kæmi síðan til álita hvort yfirfæra mætti þessa aðferða-fræði á önnur verkefni í öðrum landshlutum, til þess að greiða fyrir umferð, auka umferðaröryggi og hraða framkvæmdum. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessara tillagna er almennt jákvæð, en engar tillögur hafa þó verið lagðar
fyrir ríkisstjórn um þetta. Tillögur áðurnefnds starfshóps verða mögulega unnar áfram þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur næst sæti í ríkisstjórn og fer með forræði samgöngumála.

Áhersla á aukin fjárframlög til heilbrigðiskerfisins sem almenn samstaða er um, þýðir að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verður einkum nýtt til þess málaflokks. Ef miðað er við að núverandi fjárveitingar til samgöngumála skv. fjármálaáætlun haldi sér óbreyttar inn í framtíðina, er líklegt að það taki allt að 30 árum að ljúka endurbótum á stofnvegakerfinu út frá Reykjavík. Spurningin sem bifreiðaeigendur hljóta að velta fyrir sér er sú, hvort það sé þess virði að fá nauðsynlegar vegabætur fyrr en ella, enda mun sparnaður koma fram á móti veggjöldum í styttri ferðatíma, minni eldsneytiseyðslu og færri slysum 
með öllum þeim kostnaði og hörmungum sem þeim fylgja. Rétt er að árétta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið þörf á að einfalda og fækka þeim gjöldum sem fjallað er um í svari við spurningu tvö. Umræða um vegatolla þarf að taka mið af þessum gjöldum.

VIÐREISN
Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þeirra tillagna sem samgönguráðherra hefur skoðað enda fremur nýframkomnar.

VINSTRI GRÆN
Vinstri græn telja samgöngukerfið vera afar mikilvægan þátt í öflugum innviðum samfélagsins og það á ekki að vera í einkarekstri. Dreifðar byggðir þurfa að reiða sig á greiðar samgöngur en ekki síður er brýnt að á höfuðborgarsvæðinu sé samgöngukerfið þannig að það styðji við fjölbreytta ferðamáta og uppbygging þess taki mið af markmiðum í losun gróðurhúsalofttegunda. Vegtollar geta ekki komið í staðinn fyrir eðlilega ráðstöfun opinbers fjár til uppbyggingar sameiginlegra kerfa, eins og vegakerfisins, sem á að fjármagna til dæmis með áður nefndum olíugjöldum. Þeir geta þó átt við í undantekningartilfellum þar sem vegfarendur eiga val um aðrar leiðir.

 

Ef flokkurinn er jákvæður varðandi álagningu vegatolla telur hann þá að leggja þurfi áætlanir um breytingar fyrir þjóðina t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu eða með yfirlýsingu um hreina afstöðu fyrir kosningar til Alþingis?

BJÖRT FRAMTÍÐ
Björt framtíð vill kanna kostina og telur að svo stöddu ekki nauðsynlegt að leggja tillögur um mögulegar breytingar í dóm þjóðarinnar.

FLOKKUR FÓLKSINS
Ósvarað

FRAMSÓKN
Framsóknarflokkurinn er ekki hlynntur vegatollum, þeir eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuð-borgarsvæðisins.

PÍRATAR
Píratar eru eingöngu jákvæðir gagn-vart fjármögnun nýrra samgöngumannvirkja með vegtollum, ef hún hefur engin áhrif á þau samgöngumannvirki sem fyrir eru og ef samgöngumannvirki sem fjármögnuð eru með þeim hætti komast að fullu í eigu ríkisins þegar þau hafa verið greidd upp. Ef upp kemur sú hugmynd að fjármagna samgöngumannvirki með vegtollum, og ekkert annað samgöngumannvirki, gjaldfrjálst, er í boði, skal skilyrðislaust bera slíka hugmynd undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

SAMFYLKINGIN
Við erum ekki jákvæð varðandi álagningu vegtolla.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Eins og að framan er sagt er Sjálfstæðisflokkurinn því fylgjandi að leitað verði nýrra leiða til hraðari uppbyggingar samgöngukerfisins til að stuðla að greiðari umferð, styttingu ferðatíma og stórauknu umferðaröryggi. Í kosningum til Alþingis leggur flokkurinn fram stefnu sína fyrir kjósendur og með atkvæði sínu gefa þeir flokknum umboð sitt til að vinna að framgangi yfirlýstrar stefnu sinnar.

VIÐREISN
Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þeirra tillagna sem samgönguráðherra hefur skoðað enda fremur nýframkomnar.

VINSTRI GRÆN
Eðlilegt er að grundvallar kerfisbreytingar verði unnar í sátt og samræðum við þjóðina.