Stjórnvöld brugðust skjótt við í kjölfar bruna í rafbíl í S-Kóreu

Í septembermánuði sl. kom upp eldur í Mercedes Benz rafbíl í borginni Incheon vestan við höfuðborgina Seúl í S-Kóreu. Bílnum, sem hafði verið lagt í bílakjallara fjölbýlishúss, gjöreyðilagðist í eldinum sem olli að auki skemmdum á yfir 40 öðrum bílum. Það tók slökkviliðið um átta klukkutíma að ráða niðurlögum eldsins í fjölbýlishúsinu. Margar fjölskyldur urðu heimilislausar um tíma en byggingin varð ennfremur fyrir skemmdum.

Þetta atvik varð til þess að stjórnvöld ákváðu að umbreyta stefnu sinni þegar kemur að öryggi í rafbílum. Gripið var til aðgerða til að milda ótta almennings vegna öryggisþátta sem lúta að rafgeymum. Nýjar reglugerðir hafa tekið gildi sem skilda bílaframleiðendur til að upplýsa almenning um rafgeyma, auka öryggisskoðanir og koma í veg fyrir að ökutæki séu hlaðin að fullu.

Tilraunaverkefnið hefur verið í gangi frá því í október með fimm fyrirtækjum, þar á meðal bílaframleiðendunum Hyundai og Kia, ásamt rafhlöðuframleiðandanum LG Energy Solution. Verkefnið miðar að því að bæta öryggi rafbíla með því að láta stjórnvöld skoða og votta öryggi rafgeyma áður en þeir eru settir í bíla.

Áður en til þessa átaks kom voru rafbílar seldir í Suður-Kóreu án nokkurra öryggisprófa þriðja aðila. Samkvæmt nýja kerfinu munu ríkisreknar stofnanir eins og Rannsókna- og prófunarstofnun bíla í Kóreu prófa rafgeyma áður en þeir eru settir í bíla og tryggja að þeir uppfylli öryggisstaðla sem studdir eru af stjórnvöldum.

Bíla- og rafhlöðuframleiðendur veiti nánari upplýsingar um rafgeyma sína

Stjórnvöld krefjast einnig þess að bílaframleiðendur og rafhlöðuframleiðendur veiti nánari upplýsingar um rafgeyma sína. Áður deildu fyrirtæki eingöngu upplýsingum um afkastagetu og hámarksafköst rafgeyma. Nú þurfa þau að tilgreina gerð rafgeymanna og upplýsa um hráefnin sem notuð eru svo eitthvað sé nefnt.

Embættismenn segja að tilraunaverkefnið, sem hraðað var vegna eldins í Mercedes-Benz, eigi að veita neytendum mun ítarlegri upplýsingar við kaup á rafbíl. Búist er við að það verði að fullu innleitt í febrúar. Öryggispróf eru m.a. framkvæmd með því að kveikja í rafbílarafgeymi. Þrátt fyrir það hafa sumir efast um virkni nýju reglnanna við raunverulega öryggisaukningu.

Á dögunum sagði lögreglustjórinn í Incheon að rannsókn þeirra hefði ekki enn sem komið er leitt í ljós hvað olli spreningunni. Mercedes-Benz ökutækið eyðilagðist algjörlega í eldinum, án þess að hægt væri að bjarga nokkrum gögnum.

Í ljósi eðlis slíkra atvika lenda rannsóknir oft í því að komast að engri skýrri niðurstöðu, og rafgeymarnir fá oft á sig sökina fyrir elda í rafbílum þegar aðrir þættir gætu verið á bak við, sagði einn æðsti framkvæmdastjóri rafhlöðuframleiðanda í landinu.

Atvikið ekki dregið úr sölu á rafbílum

Atvikið í Incheon hefur síður en svo dregið úr sölu á rafbílum í landinu. Í október var góð sala í heimaframleiddum bílum og á sama tíma jókst sala innfluttra rafbíla um 15%, samanborið við mánuðinn á undan. Kannski er það að þakka skjótum viðbrögðum stjórnvalda í vegna atburðarins í Incheon.