Stjórnvöld fóru of bratt í að draga úr ívilnunum varðandi rafbíla
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, telur að stjórnvöld hafi farið of bratt í að draga úr ívilnunum varðandi rafbíla. Runólfur segir að stjórnvöld hafi gert mistök þegar ívilnanir vegna kaupa á nýjum rafbílum voru felldar úr gildi fyrir ári. Lengri tíma geti tekið að rafvæða bílaflota landsmanna. Þetta kom fram í viðtali við Runólf í kvöldfréttatíma ríkisútvarpsins.
Eins og fram hefur komið dróst sala á nýjum rafbílum dróst saman um 70 prósent á síðasta ári. Árið 2023 voru seldir rúmlega 10 þúsund rafbílar en rétt rúmlega þrjú þúsund í fyrra. Formaður Rafbílasambandsins sagði í fréttum sjónvarps í gær að kílómetragjöld sem byrjað var að leggja á rafbíla fyrir ári hefðu haft neikvæð áhrif á eftirspurn.
Runólfur Ólafsson segir að stjórnvöld hafi gert mistök þegar dregið var úr ívilnun vegna kaupa á rafbíl eins og til dæmis varðandi greiðslu virðisaukaskatts.
„Menn lærðu helst af þessu að það var farið of bratt í það að draga úr ívilnunum,“ segir Runólfur. Efnahagsástandið hafi einnig haft þau áhrif að almennt dró úr bílasölu í fyrra.
„Ég held að þetta kiíómetragjald sé ekki stóri áhrifavaldurinn. Ég veit um marga sem nota rafbíla. Þeir telja eðlilegt að þeir borgi eitthvað fyrir notkun sína. Svo verða menn að finna einhvern flöt á því hvað er sanngjarnt kílómetragjald og það sé ákveðin sanngirni varðandi stærð, þyngd og orkunotkun,“ segir Runólfur í viðtalinu á RÚV
Huga þurfi betur að uppbyggingu innviða fyrir rafbíla
„Stjórnvöld hér höfðu markað það að það ætti að hætta að selja brunahreyfilsbíla frá með 2030. Ég held að það verði heldur seinna en það mun gerast,“ segir Runólfur og bætir við að einnig þurfi að auka eftirlit.
„Ég hefði viljað sjá meira aðhald gagnvart söluaðilum raforku á þjónustustöðvum víða um land.Við sjáum að verið að selja kílóvattstundina á yfir 80 krónur á þjónustustöðvum. Við verðum að hafa í huga að margir bílaeigendur hafa takmarkaðan aðgang að heimahleðslu. Það getur verið yfir 70% dýrara að hlaða á þjónustustöð en í heimahleðslu. Þetta eru jafnvel fyrirtæki sem hafa fengið verulega ríkisstyrki til að byggja upp sína þjónustustöðvar. Það þyrfti að vera eitthvað aðhald af hálfu hins opinbera gagnvart þessum aðilum,“ segir Runólfur.