Stöðugt fleiri stolnir bílar finnast aldrei
Atvinnuþjófar færast í aukana - nytjastuldum á bílum fækkar í Danmörku.
Samhliða því að að bílaþjófnuðum fer fækkandi í Danmörku, fjölgar þeim tilfellum þar sem stolnir bílar hverfa gersamlega og finnast aldrei meir. Þetta kemur fram í frétt Motormagasinet í Danmörku.
Tryggingatölfræðistofnun í Danmörku sem nefnist Forsikring & Pension hefur birt tölur um bílaþjófnaði í landinu á árunum 2004 og 2005. Bílaþjófnuðum í heild hefur fækkað úr 8.627 árið 2004 í 7.078 í fyrra. Flestir stolnu bílarnir finnast aftur en þeim sem aldrei finnast aftur hefur hins vegar fjölgað milli áranna. Árið 2004 hurfu sporlaust og fundust aldrei 885 bílar en í fyrra voru þeir 936.
Þeim bílum sem aldrei finnast hefur stöðugt verið að fjölga undanfarin ár. Árið 1996 fundust ekki aftur 6,8% stolinna bíla en 13,2% árið 2005. Þessar tölur eiga við um kaskótryggða bíla.
Deildarstjóri hjá Forsikring & Pension segir við Motormagasinet að atvinnubílaþjófar komi sífellt meir við sögu og hlutur þeirra í bílaþjófnuðum í Danmörku sé stöðugt að vaxa meðan nytjastuldum á bílum fækki. Atvinnuþjófarnir kunni betur til verka bæði við að stela bílunum og eins að koma þeim úr landi, t.d. tll Mið-Austurlanda eða Rússlands. VW er greinilega vinsælasti bíllinn hjá þjófum og er mest stolna bílategund í Danmörku undanfarin fimm ár. Árið 2005 var Volkswagen 24% þeirra bíla sem ekki fundust aftur. Næsta tegund er Ford en 8% stolinna Ford bíla 2005 fundust ekki aftur.
En bílaþjófar virðast líka hafa smekk fyrir litum og vinsælasti liturinn virðist vera svartur. 18% algerlega horfinna bíla árið 2005 voru svartir, 15% voru bláir og 12% voru rauðir.
12% horfnu bílanna árið 2005 var stolið í Kaupmannahöfn. Næst flestir eða 4% var stolið í Álaborg. Verðmætasti bíllinn sem hvarf í Danmörku 2005 var Porsche Cayenne. Tryggingarféð sem eigandi hans fékk greitt fyrir bílinn var tæpar átta milljónir ísl. kr.