Stolnir í Danmörku - skráðir á Íslandi
Kontant; neytendadagskráin í danska sjónvarpinu hefur nú sýnt tvo af þremur þáttum sínum um danskan hrapp, Karsten Meyerdahl, sem hefur braskað með notaða bíla og m.a. selt stolna bíla til Íslands. Sá síðasti þáttanna þriggja verður sýndur á DR1 í kvöld kl 20.00.
í þættinum sl. fimmtudagskvöld 14. jan. var fjallað sérstaklega um þrjá stolna bíla sem allir eru nú skráðir á Íslandi. Þeir eru Mercedes Sprinter sendibíll, Mercedes R fólksbíll og Porsche Boxter. Rætt var í útsendingunni við skráða eigendur tveggja þessara bíla og fólk sem tengst hefur tengst innflutningi þeirra hingað til lands. Fram kom að danska lögreglan rannsakar þessi og önnur bílaviðskipti Danans. Sjá má umræddan sjónvarpsþátt hér: https://www.dr.dk/tv/se/kontant/#!/
Í honum kemur fram að Mercedes Sprinter bíllinn, sem skráður var í Danmörku, hafi verið forskráður á Íslandi á grundvelli upphaflegra þýskra skráningarpappíra. Það er óneitanlega sérstakt þar sem bíllinn var þegar þetta gerðist skráður í Danmörku sem eign fjármögnunarleigufyrirtækisins M&M Leasing. Eigandi M&M Leasing segir í þættinum að bíllinn sé stolinn. Hann hefði verið í langtímaleigu hjá fyrirtæki Meyerdahls, Eleka Group, þegar hann var fluttur til Íslands að eiganda forspurðum, seldur og skráður þar. Hinir bílarnir tveir, sem báðir voru skráðir í Danmörku, virðast hafa komist inn á íslenska bifreiðaskrá á grundvelli danskra skráningargagna. Það undarlega við það er að danskir eigendur þeirra höfðu aldrei afsalað bílana til nýrra eigenda og þeim er óskiljanlegt hvernig þetta gat gerst.
Telja verður nauðsynlegt að upplýsa hvernig þessir framannefndu bílar og ef til vill fleiri gátu fengist skráðir. Það hlýtur að vera í allra þágu að finna þær glufur sem hinum óprúttna danska athafnamanni tókst að nýta sér, og að þeim verði lokað. Því lagði fréttavefur FÍB eftirfarandi spurningar fyrir Þórólf Árnason forstjóra Samgöngustofu. Spurningarnar voru sendar á netfang forstjórans sem staðfesti móttöku þeirra strax og sagði í svarpósti að spurningunum yrði svarað fljótlega.
1. Hvernig gátu þrír stolnir bílar; FOZ97, OBV88 og ZYP63 fengist skráðir á Íslandi?
2. Hvaða gögnum var framvísað við forskráningu bílanna á Íslandi hvers um sig?
3. Hvernig getur aðili sem ekki er eigandi bíls, fengið hann skráðan inn á íslenska bifreiðaskrá?
4. Er rannsókn á framannefndum málum og hugsanlega fleiri svipaðra hafin hér á landi? Ef svo er, hverjir eru rannsakendur?
5. Hvernig er hægt að hindra að svipað gerist aftur?
Svar Samgöngustofu er undirritað af upplýsingafulltrúa stofnunarinnar, Þórhildi Elínardóttur. Það er svohljóðandi:
1) Umrædd ökutæki voru forskráð hér á Íslandi á hefðbundinn hátt, þar sem fyrir lágu frumrit af skráningargögnum fyrir ökutækin og eru þau frumrit í vörslu Samgöngustofu. Við skráningarferlið lágu engar vísbendingar fyrir um að þarna væri hugsanlega um að ræða stolin ökutæki.
2) Framvísað var fullnægjandi gögnum, þ.e. frumritum skráningarskírteina, farmbréfi og forskráningarbeiðni.
3) Ef notað ökutæki er flutt inn frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES), USA eða Kanada er almennt nægilegt að framvísa farmbréfi og erlendu skráningarskírteini þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar um ökutækið. Fyrir ný ökutæki og notuð ökutæki frá öðrum löndum en talin eru upp hér að framan verður að framvísa ítarlegum upplýsingum um gerð og búnað ökutækisins. Erlend skráningarskírteini og upprunavottorð þurfa að vera í frumriti, hvort sem um ný eða notuð ökutæki er að ræða. Sé frumriti skráningargagna, t.d. skráningarskírteini, ekki framvísað er skráningu hafnað. Farmbréf má hins vegar vera í afriti. Verklag annarra ríkja við skráningu ökutækja, innflutning þeirra og útflutning kann að vera með ólíkum hætti.
4) Upplýsingar um það hvort rannsókn sé hafin hér á landi getur aðeins lögreglan haft vitneskju eða upplýsingar um.
5) Fyrst og fremst er ábyrgðin á höndum skráningaraðila í því landi sem bifreiðin er skráð fyrst og síðan áfram, þ.e.a.s. að tryggja að ekki geti verið í umferð mörg „frumrit“ skráningarskírteina. Hérlendis er verklagið með þeim hætti að sjálfkrafa útgáfu skráningarskírteina við eigendaskipti hefur verið hætt en eigandi ökutækis getur óskað eftir útgáfu þess. Eignarhald ökutækisins er staðfest í ökutækjaskrá og enginn nema skráður eigandi í þeirri skrá getur breytt því með löglegum hætti. Útflutningur og innflutningur bifreiða er á forræði tollayfirvalda. Samgöngustofa hefur aðgang að gagnagrunni yfir skráð ökutæki, en vandamálið er að fáar þjóðir skrá í þann grunn. Ef rökstuddur grunur vaknar um hugsanleg lögbrot er ævinlega brugðist við því hjá Samgöngustofu með viðeigandi hætti.