Stórafmæli merkisvagns
Hálf öld er nú liðin síðan ŠKODA 1000 MB kom fyrst fram. Segja má að Skoda 1000 MB sé fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn frá Skoda. Frá upphafi bílaframleiðslu Skoda í byrjun 20. aldarinnar og fram til 21. mars 1964 þegar 1000 MB var fyrst kynntur, voru Skodabílar að mestu leyti handbyggðir í fremur fáum eintökum hver gerð. Með 1000 MB varð á þessu gjörbreyting þar sem um 443 þúsund 1000 MB bílar voru byggðir á tímabilinu apríl 1964 – október 1969. Það sem fyrst og fremst gerði þessa umbreytingu mögulega var að reist hafði verið ný og og mjög nýtískuleg verksmiðja til að byggja þennan nýja bíl, sem leysa átti af hólmi bíl sem hafði gerðarheitið Octavia.
Þessi gamla Octavia var í raun gamall bíll sem hannaður hafði verið ekki löngu eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar sem lauk 1918. Gamla Octavían var byggð ofan á undirvagn sem var í stórum dráttum sex tommu rör (ekki ósvipað VW bjöllunni). Fremst á þetta rör var soðinn tvíarma gaffall og á hann var svo framhjóla- og fjöðrunarbúnaðurinn, vélin og gírkassinn fest. Drifið var svo skrúfað á afturenda rörsins. Út frá því komu “hásingar” og inni í þeim driföxlar sem fluttu vélaraflið frá mismunadrifinu út í hjólin. Drifskaftinu frá gírkassanum sem flutti vélaraflið til mismunadrifsins og afturhjólanna, var komið fyrir inni í burðarrörinu mikla eftir endilöngum bílnum. Ofan á þetta burðarvirki var svo yfirbyggingin fest. Hún tók ýmsum breytingum í tímans rás en undirvagninn í gömlu Oktavíunni og sömuleiðis í gamla Blöðruskódanum var alla tíð sá sami.
En hinn nýi Skoda 1000 MB var allt annarskonar bíll. Hann var ekki byggður ofan á neitt svona rör heldur var yfirbyggingin sjálfberandi eins og algengast er enn þann dag í dag. Vélin var 1000 rúmsm að rúmtaki, vatnskæld og var aftur í bílnum og bíllinn þar með afturhjóladrifinn. Bíllinn var fjögurra dyra og þótti ágætur í akstri, rúmgóður og þægilegur og vélin sérlega þýðgeng og sparneytin. Skoda 1000 MB sló strax í gegn, bæði í heimalandinu Tékkóslóvakíu og öðrum sósíalískum löndum á áhrifasvæði Sovétríkjanna en líka utan þess. Skoda 1000 varð nefnilega talsvert eftirsóttur vestan Járntjalds, t.d. Í Þýskalandi, Bretlandi og svo sannarlega líka á Íslandi og meira að segja í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en þangað fór hvorki meira né minna en helmingur allrar framleiðslunnar á árunum 1964-1969.
Skoda 1000 MB er þannig á flestan hátt einn af merkustu bílunum í 119 ára sögu bílaframleiðslu Skoda í Mladá Boleslav og glöggur vitnisburður um tækni- og verkkunnáttu hjá Skoda, einum elsta bílaframleiðanda heimsins.