Stórfellt rafbílaátak hafið í Bretlandi
Peter Mandelson atvinnumálaráðherra tv. og Geoff Hoon samgönguráðherra sitjandi saman í nýjum Mini E rafbíl. Mini E er einn þeirra bíla sem breskum almenningi gefst nú kostur á að prófa.
Bretar hyggjast verða forystuland í því að innleiða og þróa rafbíla og tengiltvinnbíla. Fyrsta skref rafbílabyltingarinnar verður að skapa eftirspurn eftir slíkum bílum, m.a. með raunsnarlegum styrkjum og/eða gjaldaafsláttum við kaup á slíkum bílum. Gert er ráð fyrir að slíkir styrkir nemi frá 2.000-5.000 pundum á hvern bíl.
Ráðherrarnir Peter Mandelson atvinnumálaráðherra og Geoff Hoon samgönguráðherra kynntu í gær í London nýja áætlun bresku ríkisstjórnarinnar um stórfellda fjölgun raf- og tengiltvinnbíla í breskri umferð í því skyni að útrýma CO2 útblæstri frá farartækjum. Hutfall farartækja í heildar CO2 útblæstri Breta er 19 prósent. Verja á 250 milljónum punda til þessa verkefnis.
Auk beinna styrkja til kaupenda raf- og tengiltvinnbíla hyggst ríkisstjórnin einnig hjálpa til við að fjármagna fjölmörg þróunarverkefni í Bretlandi sem tengjast rafbílum. Þá verður 200 rafbílar staðsettir í nokkrum miðborgum og getur venjulegt fólk fengið þá lánaða til að skjótast erinda sinna. Tilgangur þessa er að fá vitneskju um það hvernig rafbílar uppfylla daglegar akstursþarfir og hvernig þeir eru í daglegri notkun og umgengni í samanburði við venjulega bíla.
Loks hyggst breska ríkisstjórnin verja drjúgri summu til að koma upp hleðslustaurum fyrir rafbíla. Þeir verða settir upp í miðborgum og við verslanamiðstöðvar og á öðrum stöðum sem fólk á erindi til. Staurarnir eiga að geta gefið 13 ampera straum við 240 volta spennu.
Boris Johnson borgarstjóri í London sagði í síðustu viku að hann hyggðist gera borgina að fyrirmynd annarra borga hvað varðar rafbílavæðingu og eyða í það verkefni 60 milljónum punda. Markmiðið væri það að koma 100 þúsund rafbílum í umferð í borginni og fækka hefðbundnum bílum að sama skapi.