Stórt skref í rafvæðingu bílaflotans hjá borginni
Fimmtán nýir rafmagnsbílar voru teknir í notkun hjá umhverfis- og skipulagssviði nú í byrjun desember og er það hluti af Grænum skrefum í rekstri borgarinnar. Hjalti J. Guðmundsson, sem leiðir starf skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins, var að vonum ánægður með tímamótin. „Við erum að taka risastórt skref og við eigum eftir að taka fleiri,“ segir Hjalti.
Reykjavíkurborg efndi fyrr í haust til útboðs um rekstur bíla og nú hefur skrifstofa reksturs og umhirðu fengið 9 Renault Kangoo vinnubíla og 6 Nissan Leaf bíla. Gerðar voru kröfur um lágmarksdrægni, handfrjálsan búnað, bakkskynjara eða myndavél, hæð undir bifreið o.fl. þætti til að bílarnir falli vel að starfsemi sviðsins.