Stórtap á rafbílunum
-Guð minn góður, einn kaupandi enn- segja þeir sennilega hjá Fiat/Chrysler samsteypunni þegar nýr kaupandi að rafmagns-Fiat 500 birtist. Sergio Marchionni forstjóri greinir nefnilega frá því í Automotive News að meðgjöf með hverjum slíkum bíl sé um 1,3 milljónir ísl. króna.
En kannski sem betur fer fyrir Fiat/Chrysler þá er nú svosem ekkert rífandi eftirspurn eftir rafknúnum Fiat 500 því að bíllinn er fokdýr þrátt fyrir 1,3 milljóna króna meðgjöfina frá framleiðanda. Hver rafknúinn Fiat 500 kostar nefnilega álíka og tveir Fiat 500 af dýrustu og vönduðustu gerð og þrefalt dýrari en þær ódýrustu, enda þótt notagildi rafbílsins sé mun takmarkaðra hvað varðar drægi og hleðslutíma. Í þessu samhengi ber að geta þess að Fiat 500 er (eins og Mini) alls ekki ódýr smábíll. Hann er umtalsvert dýrari en t.d. VW Polo, Nissan Micra og Fiat Panda. Síðastnefndi bíllinn er reyndar byggður á sama grunni og sömu tækni og Fiat 500 en verulega rúmbetri og notadrýgri sem heimilisbíll. - Það er einfaldlega ekki heil brú í hagkvæmni rafbílanna enda þótt við seljum þá á þreföldu verði á við venjulegu útgáfurnar, sagði Marchionni við Automotive News.
Hinn rafknúni Fiat 500 verður byggður í verksmiðju Chryslers í Mexíkó. Venjulegir bensínknúnir Fiat 500 eru (verða) einnig byggðir þar og verður hlutfall rafbílanna af heildarframleiðslunni fremur lítið. Bílarnir verða frá og með 2012 seldir í Bandaríkjunum af söluneti Chryslers og hefur talsverður áhugi verið fyrir þeim þar, einkum í Kaliforníu, Vandinn hjá Fiat/Chrysler er því sá að því meiri sem salan verður, þeim mun stærra verður tapið. Marchionni segir að þrátt fyrir þetta sé dýrt spaug verði framleiðslunni haldið áfram því að með henni skapist meiri og meiri heildarþekking á rafbílum. Auk þess hjálpi bílarnir við að lækka CO2 útblástursvísitölu Fiat/Chryslers.