Stórum öruggari Kínabílar
Fimmta prófunarlota Euro NCAP og sú síðasta á þessu ári er afstaðin. Hún nær til 14 bíla. Sex þeirra hljóta fjórar stjörnur. Þeir eru kínversku bílarnir Geely Emgrand EC7 og MG6. Aðrir sem fjórar stjörnur hljóta eru Fiat Panda, Jeep Grand Cherokee, Jaguar XF og rafbíllinn Renault Fluence ZE. Þeir sem fimmtu stjörnunni náðu eru Chevrolet Malibu, Kia Rio, Mercedes-Benz B-Class og C-Class Coupe, Ranger Rover Evoque, Subaru XV, VW Bjalla og VW up! Systurbílar VW up! sem eru Skoda Citigo og Seat Mii hlutu líka fimm stjörnur enda eru allir þessar þrjár tegundir í raun einn og sami bíllinn undir þremur nöfnum.
Kínversku bílarnir MG6 og Geely Emgrand EC7 hlutu fjórar stjörnur sem telja má ágætlega viðunandi. Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að árangur kínversku bílanna tveggja marki umtalsverð tímamót . Niðurstaðan sé skýrt merki um það að kínverskir bílaframleiðendur færi sér vel í nyt þá þekkingu sem þegar liggi fyrir og stefni hröðum skrefum í átt til betri og mun öruggari bíla en áður. Þótt kröfur EuroNCAP hafi verið hertar mjög og eigi enn eftir að harðna þá lítur út fyrir að fimmta stjarnan sé þegar í sjónmáli hjá Kínversku bílaframleiðendunum.
Segja má að á óvart komi að rafbílinn Renault Fluence ZE hafi ekki tekist að ná fimmtu stjörnunni. Það er einkum vernd fótgangandi og vernd ökumanns og framsætisfarþega gegn meiðslum sem vantar upp á. Renault Fluence er þannig jafnfætis rafbílnum Mitsubishi i-MiEV, en stendur að baki Nissan LEAF og Opel Ampera sem báðir reyndust fimm stjörnu bílar í prófunum fyrr á árinu.
Hinn nýi Fiat Panda varð af fimmtu stjörnunni vegna þess að ESC skrikvarnarkerfi er ekki staðalbúnaður heldur aukabúnaður, sem telja má sérkennilegt í því ljósi að ESC búnaður verður lögskyldur búnaður í öllum fólksbílum á árinu 2012 sem er skammt undan. ESC er hins vegar staðalbúnaður í hinum nýja VW up! og systurbílunum Skoda Citigo og Seat Mii sem skilar þeim fimmtu stjörnunni.
Jeep Grand Cherokee olli vonbrigðum hvað varðar vernd barnanna í bílnum. Það gerðist þanig að í framanáárekstri skemmdist festing sætisbeltisins sem hélt barnastólnum og var nálægt því að rifna laus. Euro NCAP hvetur tæknimenn Jeep til að rannsaka málið ofan í kjölinn og gera nauðsynlegar úrbætur.
Hjá Euro NCAP hefur verið tekin upp sú stefna að veita sérstakar viðurkenningar fyrir hvers konar nýjan tæknibúnað sem eykur öryggi fólksins í bílnum. Slíkur búnaður var í nokkrum bílanna sem prófaðir voru að þessu sinni og var hann prófaður sérstaklega og sérstök umfjöllun gefin út um hann. Ford fær þannig sérstaka viðurkenningu fyrir Driver Alert og Forward Alert kerfin í Ford Focus sem vara ökumann við ef hætta er framundan og grípur síðan inn í aksturinn ef ökumaður hunsar viðvaranir. Mercedes-Benz fær viðurkenningu fyrir sambærilegan búnað sem nefnist Attention Assist og Collision Prevention Assist sem útleggst gæti sem athyglivaki og árekstursforðari.. Opel fékk viðurkenningu fyrir skynvædd aðalljós eða Adaptive Forward Lighting og Volkswagen fyrir City Emergency Brake sem nauðhemlar bílnum ef hætta er á ákeyrslu.
Van Ratingen segir sérlega gleðilegt að sjá og reyna nýja áreksturshindrarann hjá Mercedes og fá að vita til að hann er nú staðalbúnaður í nýja B-Benzanum og þar með í fyrsta sinn í bíl af þessum stærðar og verðflokki. Á vef Euro NCAP má sjá hvernig búnaður þessi virkar.
Nýja VW Bjallan og Subaru XV sýndu sig í því að verja börnin í bílnum afar vel og hlutu báðir hæstu einkunn sem gefin er, eða 90% þeirra stiga sem eru í boði fyrir þennan þátt. Euro NCAP veitti auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir alsjálfvirkan skynbúnað fyrir loftpúðann í farþegasætinu fram í Subaru XV. Búnaðurinn skynjar hversu stór manneskjan í framsætinu er. Ef barn er í sætinu slekkur hann á kveikibúnaði loftpúðans. Þetta dregur stórlega úr hættu á loftpúðaslysi á barni í framsæti bílsins ef árekstur verður.