Styrkjum úthlutað vegna uppsetningu hleðslubúnaðar
Tæplega 19,5 milljónum hefur verið úthlutað úr styrktarsjóði til fjórtán húsfélaga í Reykjavík á síðasta ári vegna uppsetningu hleðslubúnaðar á lóðum fjöleignarhúsa. Stjórnarfrumvarp félags- og barnamálaráðherra sem miðar að því að auðvelda einstaklingum að setja upp rafhleðslustöðvar í fjöleignarhús var birt á vef Alþingis skömmu fyrir áramót.
Á nýliðnu ári og næstu tvö ár leggja Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur 20 milljónir hvor í sjóð sem úthlutar styrkjunum, eða samtals 120 milljónir. Þetta er liður í stórfelldri uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur.
Nokkrum umsóknum var hafnað þar sem þær uppfylltu ekki skilyrði reglna um styrkveitingar, ýmist þar sem bílastæðin eru í einkaeigu eða í eigu leigufélaga. Styrkirnir eru greiddir þegar framkvæmdum er lokið. Þess má geta að mörg húsfélög hafa leitað til verkfræðistofunar Verkís vegna aðstoðar við gerð umsókna um styrk í sjóðinn.
Lægsta upphæðin sem úthlutað hefur verið til húsfélags er 775.726 þúsund krónur. Hæsta upphæðin er 1.500.000 krónur, sem er jafnframt hámarksupphæð til hvers húsfélags. Greidd upphæð skal ekki nema meira en 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti.