Subaru ætlar að nýta sóknarfærin í Bandaríkjunum
Japanski bílaframleiðandinn Subaru er mjög bjartsýnn um góða sölu í Bandaríkjunum á næsta ári. Hægt hefur almennt á sölu bíla á bandarískum mörkuðum en engu að síður er Subaru vinsæll þar í landi. Bandaríkin hafa um nokkrt skeið verið stærsta markaðssvæði fyrirtækisins. Áætlanir gera ráð fyrir að Subaru selji yfir 700 þúsund bíla í Bandaríkjunum á næsta ári.
Forstjóri Subaru, Tomomi Nakamura, segist sjá sóknarfæri í Bandaríkjunum þótt markaðurinn þar um slóðir væri þungur. Hann sagði mikla eftirspurn eftir Forester og Outback í Bandaríkjunum og þeir ætli að nýta sér þann meðbyr með öllum ráðum. Salan á Forester hefur aukist um 7% í Bandaríkjunum á þessu ári. Nakamura sagði samkeppnina gríðarlega á jeppamarkaði og hún mun aukast á næstu árum.
Þess má geta að Subaru Forester hefur komið frábærlega frá öryggiskönnunum upp á síðkastið. Á dögunum skoraði bíllinn mjög hátt í öllu öryggi í könnun sem Euro NCAP, samtök bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu stóð fyrir. Euro NCAP áreksturs prófar nýja bíla og metur öryggi þeirra á hlutlægan hátt.