Subaru fær dísilvélar

http://www.fib.is/myndir/SubLegacy.jpg
Subaru Legacy. Verður fyrsti Subarubíllinn með dísilvél.

Subaru mun frumkynna Subaru Legacy með dísilvél í árslok 2007 eða ársbyrjun 2008. Þetta staðfesti aðstoðarforstjóri Subaru, Kyoji Takenaka á blaðamannafundi í lok síðustu viku.
Um það bli helmingur nýskráðra bíla í Evrópu er nú með dísilvélum. Það hefur því verið Subaru mjög til trafala að geta ekki boðið upp á dísilvélar og af þeim sökum hefur markaðshlutdeild Subaru í Evrópu verið að dragast saman.

Verkfræðingar og tæknifólk Subaru hefur undanfarið unnio hörðum höndum að þróun dísilvéla sem verða með sama byggingarlagi og bensínvélar Subaru, eða boxer-vélar (lárétt liggjandi strokkar til sinnar hvorrar handar við sveifarásinn – sama byggingarlag og á gömlu Volkswagen vélunum). Nýja dísilvélin verður fyrst boðin í Subaru Legacy frá og með 2008 árgerðinni.

Takenaka sagði jafnframt að Subaru myndi einbeita sér að þróun dísilvélanna áður en byrjað yrði að huga að framleiðslu tvinnbíla. Í þessu sambandi má geta þess að síðan Toyota keypti 8,7% hlut GM í Subaru á síðasta ári, hefur Subaru aðgang að tvinntækni Toyota, en Takenaka ítrekaði að menn ætluðu ekkert að huga að tvinntækninni fyrr en eftir að dísilvélin er orðin valkostur hjá Subaru. Dísilvélar Subaru verða smíðaðar í sömu verksmiðju og framleiðir bensínvélarnar og dísilbílar Subaru verða eins og bensínbílarnir fjórhjóladrifnir. Hjá Subaru er reiknað með því að helmingur þeirra 100 þúsund bíla sem áætlað er að selja í Evrópu 2010 verði dísilknúinn. Þá verði milli 10% og 20% allra Subarubíla í Japan og Bandaríkjunum dísilknúnir.