Subaru fær gott mat fyrir þróun öryggisbúnaðar
Samkvæmt niðurstöðu nýrrar könnunar helsta greiningarfyrirtækis Bretlands á bílamarkaði, Driver Power Survey, er það mat bíleigenda á Bretlandsmarkaði sem tóku þátt í könnuninni að Subaru sé besti bílaframleiðandi ársins þegar kemur að þróun öryggisbúnaðar fyrir bíla. Þá er Subaru jafnframt í 6. sæti yfir tíu bestu bílaframleiðendur heims.
Í könnuninni var spurt um öryggisbúnað 29 annarra bílaframleiðenda og fengu allir jepplingarnir þrír, Outback, XV og Forester, háa einkunn fyrir öryggisbúnað. Forester var í öðru sæti í mati á öryggisbúnaði borið saman við búnað 100 annarra bíltegunda í sama flokki, XV í því fimmta og Outback í ellefta í mati á eitt hundrað bíltegundum og gerðum.
Steve Fowler, ritstjóri hjá Auto Express UK, sagði þegar niðurstöður könnunarinnar voru kynntar að Subaru ætti sér langa sögu sem framleiðandi traustra og vel smíðaðra fjórhjóladrifsbíla og öryggiskerfið EyeSight beri vott um mikinn metnað framleiðandans á öryggissviði. „Á þessu ári hafa lofsyrði eigenda Subaru um EyeSight verið mjög áberandi og í nýjustu könnun okkar er Subaru í 1. sæti á sviði öryggisbúnaðar, ofar en aðrir og stærri framleiðendur,“ sagði Fowler.
Besta nýsköpunin að mati AJAC
Skemmst er að minnast niðurstöðu Sambands kanadískra bílablaðamanna, AJAC, frá því í apríl, en þá útnefndu samtökin nýja viðbót við öryggisbúnað Subaru Forester bestu nýsköpun ársins á öryggissviði (Best Safety Innovation for 2019). Búnaðurinn nefnist „Subaru DriverFocus Distraction Mitigation System“ sem ætlaður er til að auðvelda ökumanni að takast á við ýmsar truflanir sem fylgja akstri og einnig til að vekja athygli hans skynji búnaðurinn þreytumerki í fari ökumanns.
EyeSight er vel hannað og þróað öryggiskerfi sem byggir á greiningu myndavéla sem senda þrívíðar litmyndir til bíltölvu sem kennt hefur verið að bera kennsl á lögun hluta og greina hraða og fjarlægðir með nær sömu nákvæmni og mannsaugað býr yfir. EyeSight gerir greinarmun á gangandi vegfarendum, reiðhjólum, mótorhjólum og bílum auk þess að skynja hemlaljós svo eitthvað sé nefnt.