Subaru nýtur mests álits

Subaru er sú tegund bíla sem mest álits nýtur í Svíþjóð samkvæmt nýrri Auto Index könnun sem tímaritið Vi Bilägare hefur birt. Þetta er þriðja árið í röð sem Subaru er efst í könnuninni og undanfarin fimm ár hefur Subaru orðið efstur fjórum sinnum.

Auto Index er könnun sem er gerð á öllum Norðurlöndum að Íslandi undanteknu. Í sænsku könnuninni voru 15 þúsund sænskir bíleigendur spurðir um allt sem viðkemur bílnum – hvernig viðmót og þjónusta söluaðila var, hvernig viðgerða-, eftirlits-, og ábyrgðarþjónusta er, og hvernig eigendum fellur við sjálfan bílinn og hvernig endursöluverð hans er. 

Mest tryggð við bíltegund mældist hjá Subaru eigendum, enda kannski eðlilegt þegar fólk er ánægt með sjálfan bílinn og allt sem honum viðkemur.  Og þar sem annar mikli snjóaveturinn í röð í Svíþjóð stóð sem hæst þegar könnunin var gerð, þá kann auðvitað að vera að þessir ágætu vagnar með sítengt fjórhjóladrif hafi ekki beinlínis tapað á því að vera með sítengt fjórhjóladrif. 

Miðað við samskonar könnun síðasta árs þá lækkar Subaru lítillega að stigatölu nú. Könnun eins og þessi gefur kannski ekki sterkustu vísbendingar sem fáanlegar eru um gæði bíla og áreiðanleika en því meiri um tiltrú og væntingar sem fólk gerir til bílanna. Þannig kemur fyrir að bílar, sérstaklega þeir ódýrari, sem sannanlega eru með lága bilanatíðni fyrirfinnast neðarlega á lista vegna þess að fólk hefur ekki miklar væntingar til þeirra eða til sölu- og þjónustuaðila þeirra. Á sama hátt geta bílar með hærri bilanatíðni komist hátt á lista vegna þess að tiltrú til þeirra og til þjónustuaðila er meiri.

Þegar á heildina er litið hafa einkunnir lækkað frá því í könnun síðasta árs. Í könnuninni í fyrra hrapaði Mitsubishi, en merkið endurheimtir nokkur stig nú. Sömu sögu er að segja um Opel, Skoda og Volvo. Sömuleiðis hækkar Saab lítillega en það er einkum að þakka að tryggð eigenda við merkið hefur aukist. Hver áhrif ítrekuð framleiðslustöðvun og vandamál hjá Saab síðustu vikurnar hefur haft kemur sjálfsagt í könnun næsta árs, en spurningalistarnir eru lagðir fyrir svarendur í janúar og febrúar.

Loks má kalla það söguleg tíðindi að Seat sem árum saman hefur skipað neðsta sætið hefur „misst“ það til Peugeot sem allt frá 2004, þegar því gekk best, hefur verið að síga neðar og neðar á Auto Index listanum.

Auto Index könnunin nær til allt að sjö ára gamalla bíla til nýrra. Vitað er að mikið gæðaátak hefur verið gert hjá Peugeot og vera kann að þess taki að gæta á næstu árum og tiltrú til vörumerkisins taki að vaxa.

http://www.fib.is/myndir/Autoindex_2011_SE.jpg