Subaru sækir í sig veðrið
13.04.2005
Sjö manna jepplingurinn B9 Tribeca og Subaru R1. Sami meginsvipur.
Subaru ætlar að stórauka umsvif sín í Evrópu og nærri tvöfalda bílasöluna í álfunni á næstu fjórum árum. Fyrirtækið, sem lengi hefur verið leiðandi í því að smíða fjórhjóladrifna fólksbíla í heiminum, boðar nýjar gerðir bíla sem höfða muni til breiðs hóps kaupenda. Það er því ekki bara japanska stórfyrirtækið Toyota sem blæs til sóknar í Evrópu heldur líka eitt þeirra minni, - árleg bílaframleiðsla Subaru er 600 þúsund bílar
Áætlanir Subaru lúta að því að auka framleiðsluna úr 600 þúsund bílum í 900 þúsund árið 2009. Af þeim verði 100 þúsund bílar seldir Evrópubúum á móti 60 þúsund nú. Þessar áætlanir kalla á nýjar gerðir og þær eru um þessar mundir að koma fram hver af annarri.
Subaru ætlar áfram að leggja mesta áherslu á Impreza og á bílasýningunni í Frankfurt í haust verður frumsýnd ný endurbætt Impreza með aflmeiri boxermótor en áður. Glæný kynslóð Impreza mun svo verða frumsýnd á bílasýningunni í Tokyo haustið 2007. Þessi nýja kynslóð verður með nýjum meginsvip sem gríski bílahönnuðurinn Andreas Zappatinas, yfirhönnuður Subaru sem áður starfaði hjá Alfa Romeo, hefur skapað. Sá meginsvipur verður á öllum gerðum Subarubíla í framtíðinni þannig að framvegis verða Subarubílar auðþekktir.
Subaru hefur þótt líða nokkuð fyrir fábreytt úrval yfirbygginga. Úr því hyggjast Subarumenn bæta og verður nýja Imprezan sem kemur 2007 ekki einungis smíðuð sem fjögurra dyra heldur líka tveggja, sem coupé eða sportleg útgáfa, sem jepplingur og jafnvel líka sem tveggja manna sportbíll sem keppa á við þann sportbíl sem lengst hefur verið í óslitinni framleiðslu – Mazda Miata.
Og til að ná enn betur til evrópskra bílakaupenda ætlar Subaru að hella sér út í dísilvélakapphlaupið og koma fram með fyrstu boxer túrbódísilvélina í bíl nokkru sinni og verður hún fáanleg í Imprezunni 2007. Hún verður tveggja lítra og „að minnsta kosti 160 hestafla“ eins og talsmaður Subaru sagði við Auto Motor & Sport. Þessi nýja dísilvél verður síðan valkostur í Legacy og Forester frá 2008. Þá mun nýi jepplingurinn B9 Tribeca verða fáanlegur með sex strokka boxerdísilvél frá 2008. Þangað til verða menn að láta sér nægja sex strokka 250 ha. boxerbensínmótorinn sem þykir víst nokkuð þyrstur.
Loks hyggst Subaru flytja út á Evrópumarkaðinn nýjan smábíl, R1, sem eingöngu hefur verið falboðinn á heimamarkaðinum Japan hingað til. R1 var reyndar sýndur á bílasýningunni í Genf fyrir skömmu. Hann er með 660 rúmsm bensínvél og myndi kosta rúma eina milljón hér á landi. Subaru býst ekki við neinni stórsölu á þessum smábíl í Evrópu en boðar nýjan smábíl, sérstaklega hannaðan með Evrópumenn í huga árið 2007.