Suðurlandsvegur, þörf á frekari skoðun

http://www.fib.is/myndir/R%F6gnvaldurJ%F3nsson.jpg
Rögnvaldur Jónsson er verkfræðingur. Hann var áður framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni og nefndarmaður í Rannsóknarnefnd umferðarslysa.


Undanfarið hafa orðið miklar umræður um endurbætur á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu. Erfitt hefur verið að átta sig á umræðunni sem hefur verið nokkuð misvísandi en helstu niðurstöður virðast vera þessar þegar þessi grein er skrifuð:

- Forsætisráðherra segir það sína skoðun að tvöfalda eigi vegi út frá höfuðborgarsvæðinu.

- Samgönguráðherra telur (fréttablaðið 9. des. síðastliðinn) að til bráðabirgða eigi að gera 2+1 vegi á hættulegustu stöðunum en undirbúa og leggja 2+2 vegi strax og við verður komið.

- Þingmenn Suðurkjördæmis leggja til að tvöfalda eigi veginn eins fljótt og kostur er.

- Sveitarstjórnarmenn segja að tvöfalda eigi veginn strax og vísa til ákvörðunar um tvöföldun á Reykjanesbraut sem hafði minni umferð þegar sú ákvörðun var tekin heldur en núverandi umferð er um Suðurlandsveg.

- Læknar og prestar á Suðurlandi telja að byggja eigi 2+2 veg sem fyrst.

- Vegagerðin hefur lagt til að gerður verði 2+1 vegur og sé sá kostur næstum jafn öruggur og 2+2 vegur og anni umferð næstu 20 – 30 árin.

- Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur að aðgreina eigi akstursstefnur eins fljótt og við verður komið og nefnir þá í því tilliti byggingu 2+1 vegar sem hún telur að hafi reynst vel.

- Lögreglan á Selfossi leggur til að byggður verði 2+1 vegur og sé sú útfærsla nægilega örugg og vitnar hún í jákvæða reynslu af vegarkaflanum í Svínahrauni.

- Hjá ríkisstjórn, þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum virðist kostnaður skipta litlu máli heldur það sjónarmið að fyllsta öryggi verði tryggt.

Hér er því um að ræða tvö ólík sjónarmið þar sem Vegagerðin, Rannsóknarnefnd umferðarslysa og lögreglan leggja til að byggður verði 2+1 vegur en ríkisstjórn, þingmenn og sveitarstjórnarmenn vilja að byggður verði 2+2 með sama sniði og Reykjanesbrautin er byggð. Vegagerðin hefur sýnt fram á að 2+1 vegur er nægilega öruggur og að kostnaður sé nálægt einum þriðja af kostnaði við 2+2 veg. Ekki liggja fyrir röksemdir þeirra sem vilja byggja 2+2 veg en samkvæmt fréttaviðtölum sýnist mér að hér sé um að ræða að ríkisstjórn og þingmenn vilji koma til móts við sveitarstjórnarmenn sem vilja tryggja sem mest öryggi.

Í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er sett fram það markmið að umferðaröryggi hér á landi verði á við það besta samanborið við önnur lönd og eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar er greið umferð um vegi landsins. Nú verður ekki annað séð en að 2+1 vegur fullnægi báðum þessum markmiðum. Sé litið til annarra landa þá fullyrði ég að engri annarri þjóð myndi láta sér koma i hug að byggja 2+2 vegi með mislægum gatnamótum fyrir umferð sem er ekki meiri en 5 til 7.000 bílar á dag.

Það kemur ekki fram í kynningarskýrslu Vegagerðarinnar um Suðurlandsveg hvort byggja eigi stefnugreind gatnamót eða hringtorg á 2+1 veginum en kostnaður er svipaður. Samkvæmt rannsókn sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gert þá þolir mannslíkaminn árekstur án þess að mjög alvarleg meiðsli verði þegar hraði er minni en 70 km/klst og hliðarárekstur þegar hraði er minni en 50 km/klst ef ekið er á góðum bíl og notaður öryggisbúnaður. Þetta þýðir að þegar umferð er það mikil eins og á Suðurlands- og Vesturlandsvegi þá er mikil hætta á hliðarárekstrum á stefnugreindum gatnamótum sem geta leitt til alvarlegra slysa þó ekið sé á leyfðum hraða. Verði hringtorg byggð þá verður hættan lítil á alvarlegum slysum. Geta má þess að á þjóðvegum á Spáni er bannað að gera stefnugreind gatnamót á vegum sem hafa meiri umferð en 5.000 bíla á dag.

Þegar tekin er ákvörðun um notkun á svo miklu fjármagni eins og endurbygging Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar út frá höfuðborgarsvæðinu er, þá er eðlilegt að skoðuð séu markmið um umferðaröryggi og greiða umferð á landsvísu. Þjóðvegirnir eru flestir mjóir og margir ósléttir með vegsvæði sem er oft hættulegt, með margar einbreiðar brýr, marga vegarkafla þar sem vegrið vantar eða vegrið sem eru of stutt sem leiðir til mikillar slysahættu við mætingar og útafakstur. Samkvæmt Rannsóknarnefnd umferðarslysa þá verða langflest dauðaslys og alvarleg slys við mætingar og útafakstur. Þess vegna er áríðandi að líta á vegakerfið sem heild þegar fjármunum er forgangsraðað en ekki að taka vissar framkvæmdir framyfir aðrar. Lítum á eftirfarandi tvo möguleika:

a) Bygging 2+2 vegar með mislægum gatnamótumvegar frá Reykjavík til Selfoss. Vegagerðin hefur metið að framkvæmdin kosti 10-12 milljarða og er þá miðað við veg eins og byggður hefur verið á Reykjanesbraut. Vegurinn mun fullnægja markmiðum um umferðaröryggi og greiða umferð til framtíðar.

b) Bygging 2+2 vegar frá Reykjavík að Hafravatnsvegi og 2+1 vegar með hringtorgum frá Hafravatnsvegi til Selfoss. Samkvæmt Vegagerðinni verður kostnaður um 5 milljarðar. Vegurinn mun fullnægja markmiðum um umferðaröryggi og greiða umferð að minnsta kosti næstu 20 til 30 árin.

Hver er þá munurinn á gæðum? Í fyrra dæminu þá verður ferðatími nokkru styttri og þægilegri akstur en meiri líkur á hraðakstri. Í seinna dæminu er kostnaður talsvert minni, ferðatími nokkru lengri en minni líkur á hraðakstri. Í báðum tilfellum er ekki gert ráð fyrir lýsingu vegarins en kostnaður við viðhald og rekstur 2+2 vegarins verður talsvert hærri en fyrir 2+1 veginn. Einnig verður erfiðara að hálkuverja 2+2 veginn þar sem svo lítil umferð verður um hann og má því búast við fleiri slysum vegna hálku. Þar sem að vegakerfið okkar þarf miklar endurbætur svo vel sé þá mætti skoða eftirtalda möguleika og bera saman við þann kostnaðarauka sem bygging 2+2 vegar hefur.

a) Lagfæra mætti vegsvæði hringvegarins en mjög mörg dauðaslys og alvarleg slys hafa orðið við útafakstur eins og greint hefur verið frá í skýrslum Rannsóknarnefndar umferðarslysa

b) Hægt væri að breikka margar einbreiðar brýr og lengja vegrið sem eru flest hver alltof stutt og hafa orsakað mörg slys..

c) Hægt væri að setja upp vegrið á hættulegustu vegarkaflana þar sem við útafakstur velta bílar niður brattar fjallshlíðar, út í sjó eða vötn.

d) Hægt væri að breikka vegi og styrkja þannig að mætingar verði öruggari og minni hætta á útafakstri

e) Aðskilja mætti akbrautir á um þrisvar sinnum lengri vegarköflum og koma í veg fyrir slys við mætingar. Hafa þarf það einnig í huga að endurgerð núverandi vegar í 2+1 veg tekur stuttan tíma en bygging 2+2 vegar þarf langan undirbúningstíma.

Fleiri dæmi mætti taka um aðgerðir sem myndu skila mikilli arðsemi og auka umferðaröryggi en ég tel að þessi dæmi sýni það, að rétt sé að staldra við og hugsa sinn gang en láta ekki tilfinningaleg sjónarmið ráða. Framkvæmdir Vegagerðarinnar eiga samkvæmt markmiðum hennar að byggjast á arðsemi þar sem tekið er tillit til alls vegakerfisins. Sé einnig litið til umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda er eitt af markmiðum hennar að fjármagn sé nýtt þannig að það skili sem mestri arðsemi. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að 2+2 vegur frá Reykjavík til Selfoss skili arðsemi og vitað er að margar brýnar framkvæmdir í vegagerð skila mikilli arðsemi og auka umferðaröryggi mjög mikið þá hlýtur það að vera krafa almennings í landinu að gerð sé betri grein fyrir þessum málum áður en endanleg ákvörðun verður tekin.