Suzuki Ignis endurreistur
Hábyggði smábíllinn Suzuki Ignis var talsvert algengur hér á landi um tíma upp úr aldamótunum. Hann fyrirfannst í nokkrum útgáfum; tveggja og fjögurra dyra, framdrifinn eða fjórhjóladrifinn og meira segia í sérstakri nokkuð frískri sportútgáfu.
FÍB blaðið var til staðar þegar blásið var til markaðssóknar fyrir Ignis í Evrópu í Mónakó rétt eftir aldamótin síðustu. Blaðamenn reynsluóku Ignisbílum heilmikinn hring á bæði hraðbrautum og á fjallvegum Alpanna og voru síðan teknir hver fyrir sig í yfirheyrslu hjá japönskum Suzukimönnum sem báðu þá að segja bæði kost og löst á bílunum eftir aksturinn.
En svo leið tíminn og aðrar gerðir Suzukibíla leystu Ignisinn af hólmi um sinn og undanfarin átta ár hafa bílar með Ignis-nafninu (sem er latneskt og þýðir eldur) ekki fengist.
En nú er að verða breyting á því. Ignis er aftur að birtast á Evrópumarkaði og er væntanlegur fljótlega upp úr næstu áramótum. Uppleggið er hið sama og áður – lítill sparneytinn bíll og hábyggður sem fyrr en nútímalegur í útliti, tveggja eða fjögurra dyra framhjóla- eða fjórhjóladrifinn og verðlagður hóflega.
Nýi Ignisinn er nýr í hólf og gólf og auk framansagðs verða nokkrar vélargerðir eða -stærðir í boði, þar á meðal tvinnbúnaður (bensínvél-rafmagnsmótor).