Suzuki S-Cross
Á bílasýningunni í París sem nú stendur yfir sýnir Suzuki frumgerð nýs jepplings sem líklegt er að komi á markað um þetta leyti á næsta ári. Þessi nýi bíll nefnist S-Cross og er fyrsti bíll Suzuki í þeim flokki bíla sem kallast C-Crossover. Skandinavískir innflytjendur Suzuki binda miklar vonir við þennan nýja bíl og telja að hann muni falla almenningi þar vel í geð.
S-Cross verður framleiddur í Ungverjalandi. Hann verður með ýmist tveggja- eða fjórhjóladrifi og fáanlegur með bæði bensín- og dísilvélum, sjálfskiptur eða handskiptur. Framleiðandinn heitir því að CO2 útblástur bílsins verði sá lægsti í þessum flokki bíla. Norski innflytjandinn segir að tveggja hjóla drifs útgáfan verði ekki á Noregsmarkaði þegar þar að kemur.
Bílarnir sem sýndir eru í París nú eru tilbúnir til að fara í fjöldaframleiðslu og er ekki reiknað með að breytingar verði gerðar á þeim héðan af. Lengdin milli fram og afturhjóla er 2,60 m en heildarlengdin er 4,31 m, breiddin er 1,84 m oh hæðin 1,60 m.
Suzuki býr yfir langri reynslu af smíði fjórhjóladrifinna bíla af mörgu tagi, bæði fólksbíla af flestum stærðum sem og jepplinga og hreinræktaðra jeppa.