Suzuki Swift yfir 5 milljóna markið
Samanlögð sala Suzuki Swift, sem kom fyrst á markað í nóvember 2004, fór yfir fimm milljónir eintaka í byrjun apríl 2016. Það þykja jafnan nokkur tímamót þegar bílgerðir hafa selst í yfir fimm milljónum eintaka en það gerði Swift ellefu árum og fimm mánuðum eftir markaðssetningu.
Með Swift urðu talsverð tímamót í bílaframleiðslu Suzuki. Swift, sem er í flokki minni fólksbíla, hlaut strax mikið lof fyrir sportlega og stílhreina hönnun og skemmtilega aksturseiginleika. Á grunni þessa hefur hann verið valinn bíll ársins í Japan og fjölmörgum öðrum löndum. Hér á Íslandi var Swift kjörinn bíll ársins af Bandalagi íslenskra bílablaðamanna árið 2006.
Swift er sannkallaður heimsbíll. Hann hefur verið framleiddur víða um heim, t.d. í Japan, Ungverjalandi, Indlandi, Kína, Pakistan og Tælandi. Hann hefur notið mikilla vinsælda á vaxandi mörkuðum eins og Indlandi en einnig á rótgrónum bílamörkuðum, eins og í Japan og Evrópu. Nú er Swift framleiddur í sjö löndum og boðinn til sölu í 140 löndum víðs vegar um heim.