Suzuki SX4 sem stallbakur

http://www.fib.is/myndir/Suzukisx4sedan.jpg
Suzuki SX4 stallbakur.

Nú er litli jepplingurinn Suzuki SX4 einnig kominn fram í Evrópu sem fjögurra dyra fólksbíll eða stallbakur. Undirvagn og vélar eru þær sömu og í upphaflegu gerðinni – hlaðbaknum - en þó að frátöldu fjórhjóladrifinu. En nýi stallbakurinn hins vegar er heilum 35 sm lengri.

Lengingin er ekki síst aftan við afturhjólin og til þess gerð að fá aukið farangursrými. Farangursskottið er þar með ansi ríkulegt eða 515 lítrar sem er heilmikið í ekki stærri bíl.
Samkvæmt upplýsingum frá Suzuki bílum, umboðsaðila Suzuki á Íslandi er ekki ætlunin að vera með þennan bíl í sölu hér á landi, í það minnsta ekki fyrst um sinn. Eins og hingað til verður hinn fjórhjóladrifni SX4 hins vegar áfram á boðstólum. Fjórhjóladrifið í honum er þannig úr garði gert að á auðum vegum má aka honum í framhjóladrifinu einu, eða þá í sítengdu fjórhjóladrifi. Við erfiðustu aðstæður má síðan læsa saman fram- og afturhjólum. Læsingin fer síðan sjálfvirkt af þegar hraðinn fer yfir 60 km á klst.The image “http://www.fib.is/myndir/FiatSedici.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

SX bílarnir eru byggðir í verksmiðju Suzuki í Ungverjalandi. Þaðan er nýs bíls að vænta til Íslands með vorinu. Sá nefnist Splash og kemur í stað Wagon-R+ kassalaga smábílsins sem hefur verið einn söluhæsti bíllinn í Danmörku um langt skeið. Í verksmiðjunni í Ungverjalandi er Suzuki SX einnig byggður sem Fiat Sedici og Suzuki Splash á sama hátt byggður fyrir GM sem Opel Agila.