Svefnhöfgi undir stýri
05.02.2008

Upp á síðkastið hefur talsvert verið fjallað um hættu í umferðinni af völdum syfjaðra ökumanna, m.a. hér á Íslandi. Hér á FÍB vefnum höfum við áður sagt frá búnaði sem Saab, Volvo og Mercedes hafa verið að prófa, sem fylgist með aksturslagi ökumanns og grípur inn í aksturinn ef ökumaður dottar undir stýri.
Og nú er Toyota að koma fram með sambærilegan búnað sem þó er talsvert ólíkur að gerð, en búnaður Saab. Saab-búnaðurinn fylgist fyrst og fremst með veginum og vegarkantinum og grípur inn í aksturinn þegar bíllinn er á leiðinni útaf. Toyota búnaðurinn fylgist með ökumanninum sjálfum og grípur inn í þegar hann er við það að falla í svefn, fyrst með því að vekja hann með hljóðmerkjum og að síðustu með því að nauðhemla.
Einskonar frumgerð búnaðarins hjá Toyota kom fyrst fram í Lexus árgerð 2007. Í frétt frá Toyota segir að búnaðurinn hafi nú verið þróaður enn frekar og verði fáanlegur fljótlega í Lexus og Toyotabílum. Hvenær nákvkæmlega það verður er ekki tilgreint nánar.

Á teikningunum er það skýrt hvernig Toyota-kerfið vinnur í meginatriðum.
