Svíar lækka skatta á eldsneyti og bíleigendur fá endurgreiðslu úr ríkissjóði
Sænska ríkisstjórnin lækkar skatta á eldsneyti. Sænskir bíleigendur fá að auki 1.000 sænskar krónur, eða um 14.000 íslenskar krónur, sem eingreiðslu og íbúar í strjábýli fá enn meiri stuðning.
Búið var að samþykkja á sænska þinginu á liðnu hausti að lækka skatta á bensín og dísilolíu um 50 sænska aura á hvern lítra sem er um 6,90 íslenskar krónur á lítra. Þessi skattalækkun tekur gildi 1. maí nk.
Á tímabilinu frá 1. júní til 31. október lækkar eldsneytisskatturinn enn frekar eða um 1,30 krónur sænskar eða 17,95 íslenskar krónur.
Eingreiðsla til allra bíleigenda
Ríkisstjórn Svíþjóðar lagði einnig til að bæta bíleigendum enn frekar aukinn reksturskostnað í núverandi kreppu með 1.000 SEK eingreiðslu (14.000 ISK) til allra bíleigenda og að auki fá bíleigendur á strjálbýlum svæðum 500 SEK (7.000 ISK) til viðbótar. Eingreiðslurnar eru á hvern bíleiganda en ekki á hvern bíl.
Að auki leggur sænska ríkisstjórnin til nýjar reglur sem taka eiga gildi 2023 sem heimila skattafrádrátt vegna ferða til og frá vinnu fyrir íbúa á landsbyggðinni.