Svindl-búnaður í 3.647 bílum á Íslandi
Hekla, innflytjandi bíla frá Volkswagen samsteypunni hefur nú svarað því hversu margir dísilbílar hennar eru á Íslandi sem búnir eru hugbúnaði sem falsar niðurstöður mengunarmælinga. Bílarnir eru 3.647 talsins. Af þeim eru 1.129 Volkswagen fólksbílar, 348 VW sendibílar, 316 Audi fólksbílar og 1.854 Skoda fólksbílar. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Heklu frá í gær, 30. september.
Þann 29. sept. sl. sendi FÍB bréf til Friðberts Friðbertssonar forstjóra Heklu og óskaði svara við nokkrum spurningum sem skipta eigendur umræddra bíla talsverðu máli. Bréfið er svohljóðandi:
Volkswagen Group hefur viðurkennt tilvist tölvuhugbúnaðar við dísilvélar í fólksbifreiðum sem „fegrar“ niðurstöður mengunarmælinga. Af því tilefni óskar Félag íslenskra bifreiðaeigenda eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
- Í hve mörgum a) Volkswagen-, b) Skoda- og c) Audibifreiðum hér á landi er umræddur hugbúnaður til staðar?
- Er Hekla hf. ennþá að selja bifreiðar með ,tilteknum hugbúnaði dísilvéla“ sem eftir á að ,,greiða úr frávikum í“? (http://www.hekla.is/is/um-heklu/frettir/yfirlysing-fra-volkswagen-i-thyskalandi)
- Hvernig mun Hekla hf. tryggja skaðleysi þeirra neytenda sem eiga umræddar bifreiðar frá umboðsmerkjum fyrirtækisins?
- Munu þessi mengunarmál draga niður endursöluverð og söluhæfni þessara bifreiða?
- Hefur það áhrif á aksturseiginleika, afl, eyðslu eða endingu umræddra bifreiða að fjarlægja hugbúnaðinn eða gera hann óvirkan?
- Mun Hekla hf. fyrir hönd Volkswagen Group taka ábyrgð á mögulegum kröfum ríkissjóðs verði farið fram á afturvirkar greiðslur fyrir vangreidd vörugjöld og virðisaukaskatt af umræddum bifreiðum?"
Í fréttatilkynningu Heklu frá því í gær er fyrstu spurningunni svarað og þeirri þriðju að hluta á þann hátt að Volkswagen Group hafi lýst yfir fullri ábyrgð á þeim tæknilegu lagfæringum sem grípa þarf til og þeim kostnaði sem af hlýst. Öðrum spurningum FÍB er ósvarað. Því skulu eftirfarandi spurningar ítrekaðar:
Sp. 2 Er Hekla hf. ennþá að selja bifreiðar með ,tilteknum hugbúnaði dísilvéla“ sem eftir á að ,,greiða úr frávikum í“? (http://www.hekla.is/is/um-heklu/frettir /yfirlysing-fra-volkswagen-i-thyskalandi)
Sp. 4 Munu þessi mengunarmál draga niður endursöluverð og söluhæfni þessara bifreiða?
Sp. 5 Hefur það áhrif á aksturseiginleika, afl, eyðslu eða endingu umræddra bifreiða að fjarlægja hugbúnaðinn eða gera hann óvirkan?
Sp. 6 Mun Hekla hf. fyrir hönd Volkswagen Group taka ábyrgð á mögulegum kröfum ríkissjóðs verði farið fram á afturvirkar greiðslur fyrir vangreidd vörugjöld og virðisaukaskatt af umræddum bifreiðum?