Svona á ekki að meðhöndla Lödu
Sænskt bílafyrirtæki í Eskilstuna hefur hafið innflutning á Ladabílum til Svíþjóðar og fleiri Norðurlanda og ætlar sér greinilega að ná traustri fótfestu. Bílarnir eru fluttir beint inn frá verksmiðjunum í Rússlandi og gerðarviðurkenndir í Svíþjóð og eru þannig löglegir á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Aðaláherslan verður í fyrstunni á gamla jepplingin sem hér á landi kallaðist Lada Sport og er ennþá að mestu sá sami og þegar hann naut sem mestra vinsælda á Íslandi á ofanverðri 20. öldinni.
Sænska innflutningsfyrirtækið hefur látið gera talsvert nýstárlega auglýsingakvikmynd. Hún sýnir hógværan smábæjar-Svía bakka Lada jepplingnum sínum varlega út úr innkeyrslunni við húsið sitt þegar mikill rússneskur rumur ryðst inn í bílinn með þeim orðum að svona eigi nú aldeilis ekki að meðhöndla Lödu, en sjón er sögu ríkari.
Ladaverksmiðjurnar voru reistar austur á Volgubökkum á tímum Sovétríkjanna þegar Brésnef var þar aðalkallinn og lagði Fiat á Ítalíu Sovétríkjunum til tækniþekkinguna. Lada verksmiðjurnar eru ekki lengur ríkisfyrirtæki eins og í upphafi heldur hlutafélag sem er í dag í meirihlutaeigu Renault-Nissan.