Systurnar unnu sparaksturshluta keppninnar
Íslandsmót í nákvæmnisakstri 2020 lauk um helgina en það var haldið samhliða heimsmeistaramót Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í nákvæmnisakstri rafbíla, dagana 20.-22. ágúst.
Jóhann Egilsson og Pétur Wilhelm Jóhannsson á Peugeot 208-e urðu hlutskarpastir í þessum hluta keppninnar með 2.711 stig. Óku þeir 703,7 km á þremur dögum og rafmagnseyðslan var 15,86 kW per 100 km.
Raforkunotkun í keppninni hjá þeim er því 111,6 KWh, kostnaður per kWh á heimarafmagni er um 16 kr. og heildarorkukostnaður í keppninni því 1.785 kr. Vegalengdin er nálægt því eins og ekið hafi verið frá Reykjavík til Akureyrar og aftur til baka.
Í öðru sæti urðu Rebekka Helga Pálsdóttir og Auður Margrét Pálsdóttir á MG ZS EV með 4.181 stig. Í þriðja sæti á Peugeot 2008-e urðu Hinrik Haraldsson og Marinó Helgi Haraldsson 13.271 stig.
Systurnar Rebekka Helga og Auður Margrét kepptu fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu og unnu sparaksturshluta keppninnar með frábærum akstri og bestri nýtingu raforku (+9,6%) miðað við uppgefna tölu framleiðenda sem áttu bíl í keppninni.
Sigur Helgu og Auðar í sparaksturshlutanum færði þeim jafnframt annað sæti í heildarkeppninni, þar sem einnig var keppt í akstri skv. leiðarbók á uppgefnum hraða hverju sinni, auk eins stigs til heimsmeistara í heimsmeistaramótinu.
Ísorku eRally Iceland 2020, sem er hluti heimsmeistaramóts rafbíla á vegum FIA Electric Regularity Rally Cup (ERRC), hófst hér á landi sl. fimmtudag og lauk um helgina. Í heild voru eknir 703 km og þar af 407 km á sérleiðum.
Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Akstursíþróttasambands Íslands var þetta í þriðja sinn sem keppnin fór fram hér á landi. Þótti öll umgjörð keppnishaldsins til mikillar fyrirmyndar að mati sérfræðinga sem sóttu mótið á vegum FIA.