T25 borgarbíllinn senn í fjöldaframleiðslu?
Breska bílatímaritið Autocar segir að framleiðslusamningar um hinn byltingarkennda borgarbíl T25/T27 bíl séu í sjónmáli. Hönnuðurinn Gordon Murray hefur hannað bílinn og alla framleiðslu hans og byggt nokkrar frumgerðir og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir. Gordon Murrey er einn þekktasti og virtasti hönnuður kappakstursbíla og ofursportbíla sem um getur.
T25/T27 er þriggja sæta örbíll, sérstaklega hugsaður til nota í þéttbýli. Hann er mjög sterkur og öruggur og byggður úr endurnýttum efnum að lang mestu leyti. Öll framleiðsla bílsins, líf hans og eyðing er þaulhugsað og hannað ferli með það að meginmarkmiðið að framleiðslan og dreifing til kaupenda, notkun og eyðing hafi sem minnst umhverfisáhrif.
T25/T27 hefur mjög góða aksturseiginleika og er auðveldur í notkun og viðhaldi. Hann er það lítill um sig að eitt bílastæði fyrir hefðbundinn bíl dugar fyrir þrjá T25/T27 bíla og eyðsla bílsins með bensín eða dísilvél á ekki að verða nema 1-2 lítrar á hundraðið..
Gordon Murray segir í samtali við Autocar að hann eigi nú í alvarlegum viðræðum við þrjá aðila. Hann nefnir þá ekki en segir að einn þeirra sé bílaframleiðandi utan Bretlands, annar sé bílaframleiðandi með framleiðslu í Bretlandi og hinn þriðji sé nýtt breskt fyrirtæki. Allir hafi þessir aðilar áhuga á að öðlast framleiðsluleyfi og hann búist við því að í júnímánuði nk. muni liggja fyrir hver hreppi hnossið.
Sem fyrr segir hefur Murrey hannað allt framleiðsluferli bílsins til viðbótar við bílinn sjálfan en framleiðslukerfið nefnir hann iStream. Framleiðslan sjálf verður bæði mun ódýrari og einfaldari og sparneytnari á orku en hefðbundin framleiðsla smábíla og bíla yfirleitt er. Í raun má segja að iStream framleiðslan sé ekki ósvipuð hugmyndafræði IKEA sem margir kannast við. Frá verksmiðju verða bílarnir fluttir til kaupenda ósamansettir að hluta, en hægt verður að setja þá endanlega saman hjá nánast hvaða bílaverkstæði sem er og jafnvel í bílskúrnum heima.
Í raun snýst iStream framleiðslutæknin ekki um T25 eða T27 eingöngu, ekki frekar en framleiðslutækni IKEA. Almennt séð er iStream nýhugsun í bílaframleiðslu og hægt verður að byggja hverskonar aðra bíla með aðferðinni, t.d. sportbíla, sendibíla og fólksflutningabíla. Murray segir við tímaritið að þegar sé búið að hanna sex mismunandi bíla sem framleiða má með iStream tækninni. Allir þessir sex bílar séu til mismunandi nota og með mismunandi yfirbyggingum og vélum og drifbúnaði. Fyrstu frumgerðir T25 bílsins hafi verið byggðar upphaflega til að prófa sjálfa iStream tæknina fyrst og fremst. Bílarnir hafi síðan höfðað svo mjög til fólks og vakið svo mikla jákvæða athygli að fjöldaframleiðsla sé eðlilegt framhald.