Tæknisamvinna Volvo og Toyota?

http://www.fib.is/myndir/Hybrid.jpg
Tvinnkerfi í bíl.

Ónafngreindir heimildamenn innanbúðar hjá Volvo í Gautaborg í Svíþjóð segja við Auto Motor & Sport í Svíþjóð að Volvo og Toyota hafi gerð með sér samning um samstarf við að rannsaka og þróa tvinn- og tvíorkutækni fyrir bíla.

Toyota hefur afgerandi forystu í þróun þessarar tækni og er eigandi fjölda einkaleyfa sem tengjast tvinntækni. Samstarf við Toyota hlýtur því að gagnast Volvo vel, sem einmitt er að undirbúa framleiðslu á tvinnbílum. http://www.fib.is/myndir/Hybrid2.jpg

Eins og fram kemur í fréttinni hér á undan þessari, er Toyota í samvinnu við Panasonic um framleiðslu á liþíum jónarafhlöðum fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla og tímaritið getur sér þess til að það sé einkum í tækni í sambandi við rafhlöðurnar og aðgengi að þeim sem skipti Volvo mestu máli.

Tekið er fram að engin staðfesting á þessu samstarfi hafi fengist hjá Volvo. En staðreynd er þó að Ford, eigandi Volvo, hefur flutt þróunarsetur sitt fyrir tvinntækni til Volvo í Gautaborg. Í þessu þróunarsetri á að rannsaka og gera tilraunir með mjög sparneytnar dísilvélar, tvinntækni og annað eldsneyti en hið hefðbundna - dísilolíu og bensín.