Tafir, vandræði og ergelsi við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli
21.07.2005
Í hverri einustu viku setur fólk sig í samband við FÍB vegna gjaldtökunnar fyrir skammtímabílastæðin í Leifsstöð og biður félagið ásjár með að fá þessari skattheimtu hrundið. Þegar þetta er ritað í hádeginu í dag, hafa þegar tveir öskureiðir ökumenn hringt í FÍB og lýst ömurlegri reynslu sinni af skammtímabílastæðunum við Leifsstöð í gær og fyrradag.
Þann 29. apríl sl. hrintu þeir sem ráða ferðinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við Keflavíkurflugvöll, þeirri ákvörðun sinni í framkvæmd að skattleggja sérstaklega þá sem koma á einkabílum að flugstöðinni til þess að taka á móti vinum sínum og vandamönnum eða til að kveðja þá. Þessi skattlagning er fólgin í hárri gjaldtöku fyrir að leggja á skammtímabílastæðin við Leifsstöð. Sett hefur verið upp hlið sem aka þarf í gegn um til að komast inn á stæðin og annað (önnur) til að komast út af þeim aftur. Á hverjum einasta degi skapast langar biðraðir við þessi hlið, tafir og vandræði og stæðin eru mjög vannýtt vegna þessara flöskuhálsa. Tafir á nánast hverjum einasta degi eru þvílíkar að þær eru tímafrekari en að aka milli höfuðborgarsvæðisins og Leifsstöðvar sem auðvitað er óviðunandi.
Ekki er hægt að kalla þessa gjaldtöku annað en skattlagningu þessarar ríkisstofnunar sem flugstöðin er, á þá sem stutt erindi eiga í flugstöðina, t.d. til að taka á móti fólki að koma til landsins eða að skila fólki í flug. Þessi skattur er eingöngu lagður á þá sem kjósa að koma að flugstöðinni á einkabílum. Ekki leggst hann á leigubíla eða rútur. Þessi bílastæðaskattur er til viðbótar við aðra háa skatta sem notendur þessarar flugstöðvar greiða í formi lendingargjalda og flugvallarskatts ofan á verð hvers farmiða.
Í frétt um bílastæðagjöldin á heimasíðu Leifsstöðvar segir að gjaldtakan sé......„til að stuðla að því að fólk sem staldrar stutt við fái stæði. Brögð hafa verið að því að farþegar á leið úr landi skilji bílana sína eftir á skammtímastæðum og taki þar með rými frá þeim sem fylgja farþegum eða sækja þá. Gjaldskyldunni er ætlað að stuðla að því að skammtímastæðin gegni betur hlutverki sínu.“
Við hjá FÍB höfum um langt árabil komið talsvert oft við í Leifsstöð og aldrei orðið þess vör að það væri eitthvert sérstakt vandamál að fá stæði á skammtímabílastæðunum. Ekki er hægt að segja að landþrengsli og dýrt byggingarlan í kringum flugstöðina kalli á háa gjaldtöku af þeim sem staldra stutt við í Leifsstöð. Hafi verið brögð að því að einhverjir legðu bílum sínu á skammtímastæðin og færu í ferðalag til útlanda, þá er það vægt sagt heldur ómerkileg réttlæting þess að rukka alla aðra um hundrað kall á klukkutímann þarna og valda stórtöfum og vandræðum í leiðinni.
Óskandi væri að stjórn og aðrir forráðamenn Leifsstöðvar sýndu þann manndóm að hætta þessari gjaldtökuvitleysu hið fyrstu - ættu reyndar fyrir löngu að vera búnir að því.