Talið að Opec hafni því að draga úr framleiðslu
Samkvæmt fréttum í dag er talið líklegt að ráðherrafundur olíuútflutningsríkjanna innan Opec í Karakas í Venesúela hafni óskum Venesúela um að draga úr framleiðslu á olíu. Fréttirnar höfðu strax áhrif því hráolíutunnan á New York markaði féll í verði nú í morgun um 1,83 bandaríkjadali.
Opec ríkin sem stjórna um 40% af olíuframleiðslunni í heiminum munu funda á morgun, fimmtudaginn 1. júní, og taka ákvörðun um framleiðslumagnið næstu misserin.
Það er mat margra sérfræðinga að heimsmarkaðsverðið á olíu haldast mjög hátt á næstunni. Megin ástæðurnar eru mikil eftirspurn eftir olíu, sérstaklega í Asíu og Bandaríkjunum, fréttir um líklega fellibyljaógn í Norður Ameríku á þessu ári og deilur um kjarnorkumálin í Íran.
Orkumálaráðherra Katar, Abdullah bin Hammad Al Attiyah, sagði að erfitt væri fyrir Opec að leggja til samdrátt í olíuframleiðslu þegar verðið á hráolíutunnunni væri komið yfir 70 dali. Hann sagðist telja að ráðherranefndin kæmist að sömu niðurstöðu. Svipaðar yfirlýsingar hafa komið frá Chakib Khelil, orkumálaráðherra Alsír.