Tata í Indlandi fjárfestir meir í Bretlandi
Eitt sinn réðu Bretar Indlandi en er öldin önnur: Tata Motors í Indlandi sem nú á og rekur eitt breskasta bílafyrirtæki sem um getur – Jaguar / Land Rover, ætlar að fjárfesta 355 milljónir punda í nýrri vélaverksmiðju sem á að framleiða vélar í nýja Jaguar og LandRover bíla. 750 ný störf skapast.
Verksmiðjan nýja verður í Wolverhampton í Mið-Englandi ekki langt frá Solihull þar sem höfuðstöðvar LandRover hafa lengstum verið. Þessi tíðindi komu fram á ársfundi Frjálslynda flokksins breska sem fór fram um helgina í Birmingham, ekki langt frá Wolverhampton og Solihull og var þeim fagnað vel á fundinum.
Starfsmenn Jaguar / Land Rover eru nú um 19 þúsund talsins en afleidd störf af starfseminni teljast vera allt að 140 þúsund. Eftirspurn eftir Jaguar og LandRover bílum hefur mjög vaxið undanfarin ár, ekki síst í Rússlandi og Kína.
Breski bílaiðnaðurinn er núorðið að miklu leyti í eigu erlendra aðila. Í greininni starfa nú um 800 þúsund manns bílaútflutningur er um tíundi hluti árlegs útflutnings Bretlands.