Tata Nano til Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Tata_Nano_Eur.jpg
Tata Nano Europe.

Tata Nano verður ódýrasti bíll heimsins þegar sala á honum hefst í Indlandi með vorinu. Verðið verður um tvö þúsund dollarar. En Tata fjölskyldan ætlar ekki að láta sér nægja að selja bílinn á heimavelli eingöngu heldur líka í Evrópu. Svolítið endurbætt og stækkuð útgáfa og væntanlega eitthvað dýrari útgáfa af Tata Nano fyrir Evrópumarkað er nú sýnd á bílasýningunni í Genf sem opnuð var í gær. Bíllinn er væntanlegur á Evrópumarkað á næsta ári.

Nú er ár síðan Tata Nano var sýndur í Evrópu í fyrsta sinn, en það var einmitt í Genf. Frumkvöðullinn, sjálfur Ratan Tata sagði þá að bíllinn, þessi ódýrasti nýi bíll heims, yrði fáanlegur í Evrópu innan fárra ára og þá með þeim búnaði sem krafist er þar. Þeir bílablaðamenn evrópskir sem þá skoðuðu þennan smáa, hráa bíl með engan öryggisbúnað annan en öryggisbelti í framsætum töldu það þá nánast útilokað að gera bílinn löglegan í Evrópu.

En nú stendur hann inni á gólfi á Genfarsýningunni undir nafninu Tata Nano Europe og með loftpúðum fyrir framsætin, sætisbeltastrekkjurum, rafknúnu hjálparátaki á stýri, þriggja strokka vél í stað tveggja, sjálfskiptingu og meira að segja ESC stöðugleikabúnaði. Að vísu hefur þurft að bæði lengja upphaflega Nano bílinn um 19 sem og breikka um 8 sm til að koma þessu öllu saman fyrir, en það er þarna vissulega. En hann er ekki lengur ódýrasti bíll í heimi en því lofað að þetta verði ódýrasti bíll í Evrópu.