Taxi Stockholm rafvæðist
Stærsta leigubílaútgerð Stokkhólmsborgar; Taxi Stockholm stefnir að því að reka einungis mengunarlausa leigubíla innan fárra ára. Þegar bílarnir ganga úr sér eru þeir endurnýjaðir með mengunarlausum bílum – rafbílum fyrst og fremst. Af bílaflota Taxi Stockholm eru nú níu rafbílar en verða 50 að ári. Þeir bílar í flota fyrirtækisins sem nú ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í dag eru allir í flokki umhverfismildra bíla og brenna flestir jarðgasi eða metangasi.
Blaðafulltrúi fyrirtækisins segir við Motormagasinet að stjórnin hafi sett sér þá stefnu að hætta algerlega rekstri bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Nú þegar talsverð reynsla sé komin á rafbíla og hraðhleðslutækni fyrir þá hafi stóreflst, sé tími til kominn að taka þetta skref, að gera bílaflotann kolefnisútblástursfrían.
Rafbílarnir níu sem í dag eru í bílaflota Taxi Stockholm eru af tveimur tegundum: Annarsvegar Tesla S og hinsvegar Nissan Leaf. Það gæti breyst á næstu mánuðum þar sem ýmsar nýjar tegundir, gerðir og stærðir rafbíla eru væntanlegar á almennan markað á næstu mánuðum og árum.