Tekjur Bílastæðasjóðs jukust um 476 milljónir milli ára frá 2023 til 2024
Tekjur Bílastæðasjóðs jukust um 476 milljónir milli ára frá 2023 til 2024. Þar af jukust tekjur af gjaldskyldum bílastæðum um 270 milljónir sem skýrist af stækkun P1-gjaldsvæðis. Þá fjölgaði íbúakortum um 211 stykki. Þetta kemur fram í minnisblaði um sundurliðun tekna Bílastæðasjóðs fyrir árin 2022, 2023 og 2024 sem unnið var af umhverfis- og skipulagssviði og var lagt fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 9. apríl 2025 síðastliðinn.
Aukningin milli ára er að stærstum hluta tilkomin vegna stækkunar P1-svæðis sem gerði að verkum að P1-stæðum fjölgaði úr 773 í 905 milli ára. Það skýrir hvers vegna tekjur af P1-stæðum jukust um tæpar 179 milljónir frá 2023 til 2024.
Á sama tíma fjölgaði P2-stæðum aðeins um fimm talsins en tekjur af þeim jukust samt um rúmar 127 milljónir. P3-stæðum fækkaði um 82 en tekjurnar jukust um tíu milljónir og P-4 fækkaði um 29 en tekjurnar jukust um tvær milljónir. Þessar auknu tekjur skýrast af því að verð á gjaldsvæðunum þremur hækkaði um tíu krónur milli ára.
Tekjur af óflokkuðum P1-P3-stæðum dragast hins vegar töluvert saman, fara úr tæpum 97 milljónum árið 2023 í 50 milljónir 2024.
Fleiri stöðumælasektir og íbúakort
Tekjur af stöðumælasektum aukast um 73 milljónir milli ára, úr rúmlega 423 milljónum í 496 milljónir.
Þar af aukast tekjur af aukastöðugjöldum, sem lögð eru á bifreiðar þar sem ekki hefur verið greitt fyrir afnot bílastæðis á gjaldskyldu svæði, um 56 milljónir.
Tekjur af íbúakortum aukast milli ára um 12 milljónir en þeim fjölgaði um 211 milli ára, úr 1.552 árið 2023 í 1.763 árið 2024. Á tveimur árum hefur íbúakortum fjölgað um 685 stykki.
Þrátt fyrir að bílastæðum í bílastæðum hafi ekki fjölgað þá aukast tekjurnar um 64 milljónir frá 2023 til 2024. Slík stæði hafa haldist jafnmörg, 1.145 talsins, frá 2022 en tekjurnar á sama tíma aukist um tæpar 130 milljónir.