Tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja lækka
Tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja munu líklega lækka um tuttugu milljarða króna á þessu ári vegna örrar fjölgunar rafbíla hér á landi. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Vinna er hafin í fjármálaráðuneytinu við að breyta gjaldtöku af bifreiðum eftir öra fjölgun rafbíla hér á landi, sem er samkvæmt bjartsýnustu vonum. Þetta kemur fram í umfjöllun í Fréttablaðinu í dag.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir í samtali við Fréttablaðið að rafbílavæðingin hér á landi hafi gengið eftir samkvæmt bjartsýnustu spám. Íslendingar eru nú næstir á eftir Norðmönnum í fjölda rafbíla á móts við bifreiðar sem nota jarðefnaeldsneyti,“ bætir hann við.
„Það eina sem háir enn frekari rafbílavæðingu hér á landi er viðvarandi skortur á rafbílum,“ segir Runólfur. Engu að síður jókst sala rafhlöðuknúinna bíla í Evrópu um 63 prósent á síðasta ári, en vel ríflega milljón rafbílar seldust þá í álfunni og markaðshlutdeildin var tíu af hundraði.
Tekjur ríkisins af bensín- og olíugjaldi hefur löngum verið gildur gjaldstofn, en um helmingur af útseldu verði þessa jarðefnaeldsneytis sem farið hefur á tanka ökutækja hér á landi rennur ríkissjóð.
Vinna er hafin í fjármálaráðuneytinu til að breyta gjaldheimtuaðferð af bifreiðaflota landsmanna og er búist við að rafbílar verði þar ekki undanskildir. Þeir eru nú einnig undanskildir vörugjöldum að öllu leyti, ef útsöluverð þeirra er innan sex milljóna króna og hafa heldur ekki borið virðisaukaskatt innan ákveðinna verðmarka.
Innan ríkisstjórnarinnar hefur ekki aðeins verið rætt um að jafna gjöld á milli bílaflokka, að því er heimildir Fréttablaðsins herma, heldur hefur einnig verið rætt um aukna gjaldtöku á þjóðvegum, hringinn í kringum landið, til að mæta þverrandi tekjum af bifreiðaeldsneyti.