Tengil-Priusinn að koma
Í dag byrjaði Toyota í Japan að taka við pöntunum í nýja tengiltvinnbílinn Prius PHV. Á blaðamannafundi Toyota við opnun bílasýningarinnar í Tokyo sögðu talsmenn Toyota að Prius PHV sé sá bíll meðal umhverfismildra bíla sem mest notagildi hafi og yfirburðir hans fram yfir hreina rafbíla séu ótvíræðir og augljósir.
Um það bil 600 frumgerðir bílsins hafa verið í tilrauna- og reynsluakstri víða um heiminn undanfarna mánuði, m.a. hér á Íslandi. En nú er tengil-Príusinn tilbúinn til fjöldaframleiðslu og Toyota frumsýnir hina endanlegru framleiðsluútgáfu í dag á Tokyo bílasýningunni þar sem Prius PHF í forgrunni á sýningarsvæði Toyota. Fjöldaframleiðslan er reyndar hafin og verða fyrstu bílarnir afhentir kaupendum 30. janúar nk.
Verðið á Prius PHV í Japan verður frá 3.2 milljónum yena eða um 4,9 milljónir ísl. kr. Til samanburðar kostar Nissan Leaf sem er hreinn rafbíll sem dregur 160 km á hleðslunni við bestu aðstæður, 5,8 millj. ísl. kr. Reyndar er verð þessara bíla til neytenda ekki alveg svona hátt vegna þess að japanska ríkið gefur eftir tiltekna skatta og gjöld við kaup á umhverfismildum bílum. Því greiðir japanskur neytandi rúmar 4,2 milljónir ísl kr. fyrir nýjan Prius PHV.
Hinn nýi Toyota Prius PHV tengiltvinnbíll er búinn líþíum rafhlöðum frá Panasonic sem fullhlaðnar duga til 26,4 km aksturs ef ekið er á rafmagninu einu saman. Þegar stungið er í samband við 240 volta tengil full-hlaðast geymarnir á einum og hálfum tíma. FÍB fékk fyrir nokkru einn fyrrnefndra 600 Prius tengiltvinnbíla léðan hjá íslenska Toyotaumboðinu í nokkra daga. Tvö heimili skiptust á um bílinn og bæði sannreyndu að auðveldlega mátti komast flestra sinna ferða innanbæjar á bílnum án þess að bensínvélin í honum færi nokkru sinni í gang, meira að segja í roki og rigningu með miðstöð og rúðublásara á fullu.
Drægi Prius PHV er ríkulegt á fullhlöðnum rafgeymum og fullum eldsneytistanki, eða þúsund kílómetrar og það án þess að sérstaklega sé hugað að sparakstri. Hægt er að aka bílnum í meginatriðum með þrenns konar hætti: Í fyrsta lagi á rafmagninu einu, í öðru lagi í blönduðum bensínsparnaðarham rafmagns og bensíns og í þriðja lagi sportakstursham. Í þeim síðastnefnda er öllum hestöflum raf- og bensínvélar sleppt lausum í einu.
Í blönduðum raf-bensín akstursham sem kenndur er við economy eða hagkvæmni kemst bíllinn þetta 60-62 kílómetra á bensínlítranum. Það jafngildir rúmlega 1,6 lítra eyðslu á hundraðið. Ökumaður einfaldlega velur þann akstursham sem hann kýs hverju sinni með snúningsrofa. Að öðru leyti er Prius tengiltvinnbíllinn svosem lítið frábrugðinn venjulegum sjálfskiptum bíl í akstri.
Á blaðamannafundinum í Tokyo í morgun kom fram að Toyota áætlar að selja 60 þúsund Prius PHV bíla á næsta ári, þar af 35-40 þúsund stykki í Japan. Bíllinn kemur á Bandaríkjamarkað næsta vor og verður byrjunarverðið þar 3,8 milljónir ísl. króna. Prius PHV kemur svo á Evrópumarkað um mitt næsta sumar. Byrjunarverð þar verður 5,9 milljónir ísl. kr. Talsmenn Toyota tóku fram að verðið yrði nokkuð misjafnt eftir markaðssvæðum.