Tengiltvinnbílar eru áfram vinsælastir í flokki umhverfisvænni bíla
Áherslur einstaklinga á að velja umhverfisvænni kosti eru sífellt að verða sterkari, orkuskiptin eru ekki að fullu komin. Þau nálgast þó hratt með tilkomu fleiri ökutækja sem bjóða upp á annarskonar aflgjafa en jarðeldsneyti eingöngu. Metanbílar reka lestina á eftir rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum, árið 2018 voru skráðir 144 nýir metan bílar.
Fækkaði nýskráningum slíkra bíla um 55% samanborið við fyrra ár. Einnig varð fækkun á nýskráningu rafmagnsbíla milli ára, alls voru 784 nýskráðir rafmagnsbílar árið 2018, 7,4% færri en árið á undan.
Í Árbók Bílgreinasambandsins kemur fram að alls hafa 9.979 bílar verið skráðir sem keyra fyrir tilstilli metans, rafmagns eða tvíorku. Tengiltvinnbílar eru áfram vinsælastir í flokki umhverfisvænni bíla, jókst skráning slíkra bíla um 38,5% milli ára og voru 2.868 nýir bílar skráðir á árinu.
Sé miðað við að allir skráðir bílar í þessum þremur flokkum séu í notkun, þá eru um 1.477 metanbílar í umferð, 2.677 rafmagnsbílar og 5825 tengiltvinnbílar, síðastnefndi hópurinn stendur fyrir tæplega 59% bíla í flokknum.
Hraðhleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla hefur farið ort fjölgandi frá því að Orka Náttúrunnar setti upp fyrstu stöðina. Fyrsta stöðin var sett niður 2014 og fjórum árum síðar höfðu rafbílaeigendur tækifæri til þess að keyra hringveginn án þess að hafa áhyggjur af rafmagnsleysi.
Uppbygging á landsbyggðinni stendur enn yfir og er fjöldi hraðhleðslustöðva áætlaður á komandi ári. Þá var nýlega tilkynnt að Reykjavíkurborg hyggðist koma upp 90 hraðhleðslustöðvum á næstu þremur árum.
Árið 2019 má gera ráð fyrir að u.þ.b. 100 hraðhleðslustöðvar verði aðgengilegar fyrir almenning víðsvegar um landið, þó flestar hleðslustöðvar séu á höfuðborgarsvæðinu.