Tengiltvinnbílum fjölgar hratt
Árið 2008 urðu straumhvörf innan bílageirans og áherslur framleiðenda og neytenda fóru í meiri mæli að beinast að endurnýjanlegum orkugjöfum. Árið 2009 voru fyrstu tveir metanbílarnir nýskráðir hér á landi og hefur nýskráningum metanbíla fjölgað nokkuð jafnt í gegnum árin. Þetta kemur fram í Árbók Bílgreinasambandsins.
Samtals voru 1.333 metanbílar skráðir frá 2009 til 2017. Rafmagnsbílar komu á íslenskan markað stuttu seinna. Fyrstu tveir bílarnir voru nýskráðir árið 2010. 2012 til 2013 varð fyrsta stóra aukningin á milli ára þegar fjöldi rafbíla þrefaldaðist milli ára.
Árið 2014 hóf Orka Náttúrunnar að koma upp hraðhleðslustöðvum á opnum svæðum. Síðan þá hefur fjölgunin verið mikil á nýskráningum rafbíla. Árið 2016 voru nýskráningar 376 en fóru upp í 847 bíla árið 2017. Var hlutfallsbreytingin um 125% á milli ára. Þá hafa samtals 1.893 rafmagnsbílar verið skráðir árin 2009 til 2017.
Tengiltvinnbílar komu á markað árið 2014 og hefur aukningin undanfarin ár verið mest í nýskráningum á slíkum bílum. Árið 2016 voru 691 tengiltvinnbílar nýskráðir og árið 2017 voru þær um 1.380 bílar eða 200% fleiri. Þrátt fyrir að hafa verið töluvert skemur á markaði eru tengiltvinnbílar nú flestir og hafa 2.957 tengiltvinnbílar verið skráðir frá 2014.
Síðastliðin ár hafa sífellt fleiri bílaframleiðendur einbeitt sér að framleiðslu rafmagns- og tengiltvinnbíla, úrvalið hefur aukist mikið og er viðbúið að það muni aukast enn frekar á komandi árum. Það sem helst ræður úrslitum um fjárfestingu neytenda í rafbílum er drægni og verð bílsins. Með aukinni framleiðslu mun verð líklega lækka og með frekari tækniþróun eykst drægni.