Tesla á svörtum lista í Svþjóð

Sænsk stjórnvöld vinna að því að tryggja réttindi bíleigenda og neytenda sem stuðlar að því að bílaiðnaðurinn fylgi þeim lögum og reglum sem samkomulag hefur náðst um. Fyrirbyggjandi starf með ráðgjöf og hagsmunabaráttu neytendum til handa er sérstaklega mikilvægt þegar stórir aðilar kjósa að fylgja ekki reglum og skilmálum.

Í athyglisverðu máli hefur Tesla lent á Svarta lista Råd & Rön, sem er opinbert neytendablað kostað af sænskum stjórnvöldum með nytsamar upplýsingar, gæða úttektir og innkallanir svo eitthvað sé nefnt. Tesla er komin á þennan lista fyrir að hafa neitað viðskiptavini um ábyrgð vegna lakkskaða á bifreið sinni. Tesla hefur neitað að fylgja ráðleggingum og ákvörðun sænsku almennu kvörtunarnefndarinnar (ARN) um að bæta viðskiptavininum tjónið.

Athugaðu svarta listann svo þú lendir ekki í vandræðum

,,Því miður eru fjölmargir óáreiðanlegir bílasalar á Svarta listanum og við ráðum almenningi eindregið frá því að eiga viðskipti við þá. Við nefnum það alltaf í ráðleggingum okkar að almenningur sé vel á verði og skoði svarta listann svo kaupandinn lendi ekki í vandræðum. Margir verða líklega hissa á því að fyrirtæki eins og Tesla er nú einnig eitt af þeim sem við ráðum frá að eiga viðskipti við," segir Carl-Erik Stjernvall, tæknisérfræðingur hjá M Sverige sem er félag sænskra bíleigenda og systurfélag FÍB.

Tesla í Svíþjóð er meðlimur í sænska bílgreinasambandinu, Mobility Sweden, sem sameinar bílaframleiðendur og innflytjendur. Í samþykktum Mobility Sweden eru ákvæði um að meðlimir samþykki að una úrskurðum almennu kvörtunarnefndarinnar.

,,Aðrir meðlimir Mobility Sweden eru líklega ekki ánægðir með að Tesla bregðist svona við, það skaðar auðvitað traust. Ég er viss um að umræður eigi sér stað, en þegar við höfum spurt vill enginn tjá sig um innihald þeirra," segir Carl-Erik Stjernvall og ráðleggur fólki að forðast viðskipti við fyrirtæki sem eru á svarta listanum.