Tesla rafbíllinn náði ekki alla leið til Stokkhólms

Rafbíllinn Tesla komst ekki alveg alla leið frá Gautaborg til Stokkhólms á einni rafhleðslu í sparakstri sænska bílatímaritsins Auto Motor & Sport í gær. Rafmagnið kláraðist og bíllinn stöðvaðist skammt vestan við Eskilstuna þegar fáeinir kílómetrar voru eftir í áfangastað. Þá stóð kílómetrateljarinn í 388,5 kílómetrum. Sagt var frá upphafi þessa ferðalags í frétt hér á heimasíðu FÍB í gær.

 Ferðin hófst í Gautaborg í gærmorgun. Bíllinn var tekinn út úr upphituðum bílskúr, rafgeymasamstæðan var fullhlaðin og á skjánum í mælaborði bílsins stóð að nægt rafmagn væri til að aka 386 km. Til að spara sem mesta orku notaði ökumaðurinn ekki miðstöðina og minnstu möguleg ljós, bæði ökuljós og mælaborðsljós og hafði slökkt á útvarpi og hljómtækjum.

Sjálfur bíllinn er næstum glænýr Tesla Roadster Sport Signature Series, nr. 32 af 250 sem byggðir eru fyrir Evrópumarkað. Eigandinn sem lánaði tímaritinu bílinn til akstursins notar hann sjálfur daglega og hefur ekið allt að 320 kílómetra á hleðslunni.

Leiðin lá að mestu um þjóðveg/hraðbraut E20 og að sjálfsögðu skipti sjálft ökulagið miklu máli. Tesla Roadster er mjög aflmikill sportbíll og sé aflið nýtt til fulls í akstri, dugar straumurinn að sjálfsögðu skemmri vegalengd. En bíllinn er búinn fjórum mismunandi akstursforritum. Eitt þeirra heitir Ideal Range og á að skila einna bestu hlutfalli afls og ekinnar vegalengdar. Hraðinn var lengstum um 80 km á klst. Á þeim hraða var straumnotkunin að meðaltali 1,51 kílóWatt á klst.

Skjárinn sem sýnir hve mikil orka er eftir á geymunum og hversu marga kílómetra bíllinn kemst á henni er þannig gerður að þegar hann sýnir núll, á að vera samt nægur straumur til að komast milli 50 og 60 kílómetra til viðbótar. Þetta sýndi sig að vera rétt því að nokkru vestan við Eskilstuna sagði skjárinn að rafmagnið væri búið. Bíllinn stöðvaðist hins vegar ekki fyrr en talsvert austan við Eskilstuna. Sjá kort af leiðinni hér.