Tesla tekur stökk í nýskráningum fólksbifreiða
Fjöldi nýskráninga fólksbíla það sem af er á árinu er alls 13.472. Á sama tíma í fyrra voru þær 12.867 og nemur því aukningin um 4,7%. Dregið hefur úr sölunni í september þegar tölur í sama mánuði á síðasta ári eru skoðaðar. Alls er nýskráningar í september á þessu ári alls 770 en voru 934 í sama mánuði í fyrra að því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.
Hlutdeild rafmagnsbíla það sem af er árinu er alls 41.6%. Hybrid bílar er með 18.8% hlutdeild og þriðju í röðinni koma dísilbílar með 15,6%. Bensíbílar hafa 12,6% hlutdeild og tengiltvinnbílar 10,4%. Þegar fjöldi bíla í framangreinum flokkum er skoðaður eru nýskráningar í rafmagnsbílum alls 5.600. Hybridbílar eru alls 2.667 og dísilbílar 2.100.
Töluvert hefur dregið úr nýskráningum tengiltvinnbíla og nemur hún alls 55% á milli ára. Aftur á móti hefur nýskráningum í rafbílum fjölgað til muna, eða um tæp 60% það sem af er árinu.
Þegar rýnt er í nýskráningar einstakra bílategunda vekur athygli hvað Tesla tekur mikið stökk í septembermánuði. Nýskráningar í Tesla það sem af er þessum mánuði eru alls 246 bifreiðar sem gerir tæplega 32%. Toyota er í öðru sæti með 76 bifreiðar og Kia 60. Þegar hins vegar árið til þessa er skoðað eru nýskráningar í Toyota flestar, alls 2.403 bifreiðar sem gerir um 17,9% hlutdeild. Tesla kemur næst með 2.115 bifreiðar og Kia 1.662. Þessar bílategundir skera sig nokkuð úr.